TILKYNNINGAR OG FRÓÐLEIKUR

8. desember 2004.

Fréttatilkynning frá embætti yfirdýralæknis og sóttvarnarlækni

Miltisbrandur staðfestur í hrossum á Vatnsleysuströnd

Þrjú hross hafa á undanförnum dögum drepist úr miltisbrandi á bænum Sjónarhóli á Vatnsleysuströnd. Fyrsta hrossið drapst síðastliðinn fimmtudag, tvö hross drápust síðastliðinn sunnudag og fjórða hrossinu á bænum hefur verið lógað. Blóðsýni sem rannsökuð voru á Tilraunastöðinni að Keldum hafa leitt í ljós að um miltisbrand er að ræða. Hross í nágrenni við Sjónarhól hafa verið sett í aðhald og fylgst verður með heilsufari þeirra. Á nágrannabæ eru einnig fáeinar sauðkindur og hefur héraðsdýralæknir gefið fyrirmæli um að þær verði hýstar.

Ekki er enn vitað hvernig smitið barst í hrossin en það er nú í rannsókn.

Landbúnaðarráðuneytið hefur, að tillögu yfirdýralæknis, fyrirskipað bann við flutningi búfjár til og frá bænum, brennslu á hræunum á staðnum, auk hreinsunar og sótthreinsunar á svæðinu. Umferð fólks og dýra um svæðið er einnig takmörkuð um sinn.

Miltisbrandur er bráður og oftast banvænn bakteríusjúkdómur sem öll dýr með heitt blóð geta tekið. Hann er algengastur í grasbítum. Hann greindist síðast á Íslandi árið 1965. Sjúkdómnum veldur, Bacillus anthracis, sem er grómyndandi baktería. Gróin geta lifað í áratugi eða jafnvel aldir í jarðvegi. Oftast kemur sjúkdómurinn upp í tengslum við jarðrask og því er sjúkdómurinn staðbundinn. Skepnur smitast við að drekka mengað vatn, bíta mengað gras eða við að éta mengað kjöt- og beinamjöl.

Smit frá einu dýri til annars er mjög sjaldgæft.

Meðgöngutími sjúkdómsins er 1–3 sólarhringar, sauðfé og nautgripir drepast oft skyndilega án þess að hafa sýnt einkenni um sjúkdóm, hross drepast oftast 2- 3 dögum eftir að fyrstu einkenni sjást.

Sýkinga í fólki sem hafa komist í snertingu við dýrin hefur ekki orðið vart.

Sjúkdómurinn smitar ekki manna á milli. Þeir sem meðhöndla sýkt dýr eða afurðir sýktra dýra eru í mestri hættu á smiti og því er langalgengast að fólk smitist eftir snertingu við sýkt dýr.

Einkenni miltisbrands í fólki ráðast að nokkru af því hvernig smitið berst. Sýkillinn berst á þrjá vegu inn í líkamann: gegnum rofna húð með sýkingu í húð, gegnum meltingarveg með sýktri fæðu sem leiðir til meltingarfærasýkinga og um öndunarfæri sem veldur sýkingu í lungum. Bakterían berst í eitilvef og þaðan út í blóð. Lungnasýkingin er alvarlegasta sjúkdómsmyndin. Húðsýkingin er langalgengast sjúkdómsmyndin meðal manna en hún er jafnframt mildasta formið og leiðir til dauða í 10-20% tilvika ef hún er ekki meðhöndluð.

Það skal ítrekað að afar ólíklegt er að smit verði í mönnum nema bein snerting við sýkt dýr hafi orðið. Engin hætta er á smiti hjá einstaklingum sem átt hafa leið hjá svæðinu.

Embætti yfirdýralæknis
Sóttvarnarlæknir

Nánari upplýsingar gefa:

Sigurður Örn Hansson sími 545 9750
aðstoðaryfirdýralæknir

Guðrún Sigmundsdóttir
Yfirlæknir á sóttvarnasviði