TILKYNNINGAR OG FRÓÐLEIKUR


6. ágúst 2004

Ófullnægjandi hitameðhöndlun á mjólk veldur faraldri í Kaupmannahöfn.

Faraldur sýkinga af völdum verocytotoxin- framleiðandi E.coli (VTEC) O157, sem eru fjölónæmar bakteríur, stóð yfir á Stór- Kaupmannahafnarsvæðinu frá september 2003 þar til í mars 2004. Alls veiktust 18 börn og 7 fullorðnir. Aðaleinkenni voru krampar í kviðarholi og niðurgangur. Ekki komu fram einkenni nýrnabilunar, sem oft fylgja sýkingum af þessum uppruna.

Við rannsóknir heilbrigðisyfirvalda kom í ljós að það eina sem tengdi öll tilfellin saman var neysla mjólkur frá ákveðnu mjólkurbúi, sem seld var í einni verslanakeðju á Kaupmannahafnarsvæðinu. Framleiðsla mjókurbúsins var stöðvuð tímabundið á meðan búið var hreinsað og hitastig gerilsneyðingar hækkað. Eftir það hafa engin tilfelli komið upp.

Þetta er fyrsti faraldurinn af völdum VTEC O157 í Danmörku. Faraldrar með þessari bakteríu, sem rekja hefur mátt til mjókurafurða, hafa áður komið upp í Bretlandi.

Framleiðsla, dreifing og sala ógerilsneyddra mjólkurafurða bönnuð á Íslandi
Á Íslandi er bannað að framleiða, dreifa eða selja ógerlisneyddar mjólkurafurðir. Innflutningur á þessum vörum er sömuleiðis bannaður. Einungis er heimilt að flytja inn mjólkurafurðir sem hafa verið gerilsneyddar eða þær fengið sambærilega meðhöndlun að mati yfirdýralæknis.


Tríkínusýkingar í Danmörku

Seinnihluta febrúarmánaðar komu upp sjö tilfelli tríkínusýkinga í fólki í Danmörku. Hægt var að rekja orsök sýkinganna til innfluttrar rúmenskrar, reyktrar, hrárrar pylsu sem búin var til úr heimaslátruðu svíni. Alls höfðu átta einstaklingar borðað af pylsunni og þar af veiktust sjö. Helstu sjúkdómseinkenni sjúklingsins sem veiktist fyrst voru kviðverkir, niðurgangur og hitaköst. Nokkrum vikum eftir að veikndin hófust tókst að finna mótefni við tríkínum í blóði fjögurra sjúklinga.

Innflutningur á hráu kjöti bannaður
Bannað er að flytja inn hrátt kjöt án þess að hafa til þess formlegt leyfi landbúnaðarráðuneytisins, sem einungis gefur slíkt leyfi út að fenginni umsögn embættis yfirdýralæknis, og að því gefnu að öll tilskilin vottorð séu lögð fram. Algert skilyrði þess að innflutningur sé heimilaður á hráu kjöti er m.a. að slátrun, vinnsla og pökkun hafi farið fram í löggiltum fyritækjum sem framkvæma m.a. leit að tríkínum.

Tríkinur hafa aldrei fundist í Íslandi, þrátt fyrir mikla leit árum saman.