TILKYNNINGAR OG FRÓÐLEIKUR


5. ágúst 2004

Nýjar reglur varðandi útflutning hunda og katta til landa innan ESB/EES

1. október nk. taka gildi nýjar reglur varðandi útflutning hunda og katta til landa innan ESB/EES. Fram að þessu hafa flest lönd einungis gert kröfu um almennt heilbrigðisvottorð auk þess sem dýrið hefur þurft að vera ormahreinsað og auðkennt með varanlegu merki. Hundaæðisbólusetningar hefur einungis verið krafist vegna flutnings til Bretlands.

Nú þarf hins vegar að bólusetja alla hunda og ketti sem flytja skal til landa innan ESB/EES gegn hundaæði. Ekki er tekið tilllit til stöðu Íslands (sem er hundaæðis-frítt land) og Bretland, Írland, Svíþjóð og Noregur gera auk þess kröfu um að magn hundaæðismótefna í blóði sé mælt.

Þetta gerir það að verkum að þeir dýraeigendur sem hafa hugsað sér að flytja dýrin sín til einhvers þessara landa þurfa að huga að undirbúningi með góðum fyrirvara í samráði við sinn dýralækni. Sérstaka undanþágu yfirdýralæknis þarf til að kaupa og nota hundaæðisbóluefni.

Dýrin skulu eftir sem áður vera örmerkt eða eyrnamerkt og meðhöndluð gegn sníkjudýrum og nota skal sérstök vottorðaeyðublöð sem eru útgefin af ESB. Auk dýralæknisins sem meðhöndlar og fyllir út vottorðið skal opinber dýralæknir (viðkomandi héraðsdýralæknir) skrifa undir á vottorðið.

Eins og áður segir taka þessar reglur gildi 1. október en nýju vottorðin hafa þegar verið tekin í notkun. Dýralæknar eru hvattir til að kynna sér þessar reglur vel til að geta leiðbeint sínum viðskiptavinum um hvernig beri að undirbúa útflutning hunda og katta til þessara landa.

Gæludýravegabréf (Pet Passport) sem farið er að taka í notkun innan ESB eru ekki nauðsynleg fyrir útflutning frá Íslandi (vottorðin duga) en ef ætlunin er að ferðast með dýrin innan ESB þarf að láta útbúa slíkt vegabréf þegar út er komið. Þá þarf að hafa meðferðis frumrit vottorða um hundaæðisbólusetningu, mótefnamælingu og fleira (sem þurfa hvort eð er að fylgja dýrinu við útflutning).

Nánari upplýsingar og vottorð er að finna hér

Ekki tekið tillit til stöðu Íslands sem hundaæðisfrítt land
Við undirbúning þessara nýju reglna var því miður ekki tekið nokkurt tillit til stöðu Íslands sem hundaæðisfrítt land (viðurkennt sem slíkt af OIE) en embætti yfirdýralæknis mun áfram leita allra leiða til að fá ESB til að falla frá fyrirhuguðum kröfum sínum um að bólusetja þurfi íslensk gæludýr vegna innflutnings til landa ESB/EES

Geta má þess að þegar um er að ræða innflutning hunda og katta til Íslands er að fullu tekið tillit til stöðu útflutningslands varðandi hundaæði og ekki er krafist hundaæðisbólusetningar / mótefnamælingar frá löndum sem eru viðurkennd sem hundaæðis-frí.

Nánari upplýsingar veitir Gísli Sv. Halldórsson dýralæknir inn- og útflutningseftirlits í s. 545 9750