TILKYNNINGAR OG FRÓÐLEIKUR


6. desember 2004

Ný reglugerð um innflutning gæludýra og hundasæðis

18. nóvember sl. tók gildi ný reglugerð um innflutning gæludýra og hundasæðis sem hlaut númerið 935/2004. Jafnframt féll úr gildi reglugerð nr. 431/2003 um sama efni. Ekki er um að ræða miklar breytingar á eldri reglugerð en eftir að hún tók gildi í júní 2003 hafa komið í ljós ýmsir vankantar sem þörf var á að endurskoða. Innflutningsleyfi sem veitt hafa verið skv. eldri reglugerðinni halda gildi sínu (gildistími er eitt ár) og sama gildir um vottorð sem innflytjendur hafa fengið send til að nota við innflutning á sínum dýrum. Ekki er um að ræða strangari kröfur varðandi bólusetningar eða slíkt.

Helstu breytingar eru eftirfarandi:

1. Ákvæði um að dýr skuli hafa dvalist í útflutningslandi í 6 mánuði fyrir komu til Íslands, var fellt út. Í ljósi nýrra reglna varðandi innflutning hunda og katta til landa innan ESB/EES var ekki lengur talin þörf á þessu ákvæði. Öll lönd sem eru, skv. Alþjóðadýraheilbrigðisstofnuninni talin hundaæðis-frí, gera kröfu um hundaæðisbólusetningar vegna innflutnings (11. gr.).

2. Vottorð skulu send yfirdýralækni með faxi a.m.k. 5 sólarhringum fyrir áætlaða komu dýrsins (var áður vika) (6. gr.).

3. Breyting var gerð á ákvæði varðandi bólusetningar, þ.e. hvenær og hve oft skyldi bólusetja gegn viðkomandi sjúkdómum (11. gr.). Nýja regluerðin kveður á um að dýrin skulu fullbólusett gegn þeim sjúkdómum sem kveðið er á um og fylgja skal fyrirmælum framleiðanda viðkomandi bóluefnis varðandi grunn- og endurbólusetningar. Þó eru öll ákvæði varðandi hundaæðisbólusetningu óbreytt. Sambærilegar breytingar voru gerðar á ákvæðum um bólusetningar vegna innflutnings á hundasæði.

4. Prufur vegna B.canis (hundar), FIV/FeLV (kettir) og Salmonella (hundar og kettir) skal, skv. nýju reglugerðinni, taka á síðustu 30 dögum fyrir komu til Íslands, í stað síðustu 3ja vikna (21 dags) fyrir komu (11. gr.). Þetta ákvæði hefur í einhverjum tilfellum orðið til þess að vottorð bærust ekki í tíma. Einnig er um að ræða samræmingu við bólusetningar, þ.e. hægt er að taka sýnin á sama tíma og síðasta bólusetningin er framkvæmd, ef það hittir þannig á. Sambærilegar breytingar voru gerðar á ákvæðum um bólusetningar vegna innflutnings á hundasæði.

5. Breyting var gerð á ákvæði varðandi skapgerðarmat (12. gr) og í stað þess að kveðið sé á um að matið skuli framkvæmt af sérfræðingi sem hefur viðurkenningu hundaræktarfélags sem er aðili í FCI, skal yfirdýralæknir setja nánari reglur um framkvæmd matsins. Ákvæði brottföllnu reglugerðarinnar reyndist í einhverjum tilfellum óframkvæmanlegt og virtist ekki geta átt við öll lönd.

6. Viðbót var gerð við 13. grein, sem kveður á um óheimilan innflutning. Taldar eru upp þær hundategundir sem bannað er að flytja inn og við það bætist: ”aðrar hundategundir skv. ákvörðun landbúnaðarráðherra að fenginni rökstuddri umsögn yfirdýralæknis.”

Verið er að vinna í að uppfæra leiðbeiningarbæklinga, gátlista, vottorð og fleiri eyðublöð vegna innflutnings gæludýra, og verður nýtt efni sett á vef yfirdýralæknis svo fljótt sem auðið er (sjá innflutningur gæludýra). Eins og áður segir eru eldri eyðublöð þó enn í gildi.

Reglugerð nr. 935/2004 um innflutning gæludýra og hundasæðis