TILKYNNINGAR OG FRÓÐLEIKUR


6. febrúar 2004

Æfing í viðbrögðum við smitsjúkdómum í búfé 18.-20 mars n.k.

Frá árinu 1998 hefur embætti yfirdýralæknis unnið að gerð viðbragðsáætlana við smitsjúkdómum í búfé. Nú er fyrsta hluta þess verks lokið, en næsta skref er að halda æfingu til að reyna þær áætlanir sem gerðar hafa verið. Prófa þarf á sem raunverulegastan hátt þau viðbrögð sem beita þarf, komi upp bráðir smitsjúkdómar í búfé.

Reynslan sýnir að með auknum ferðum fólks milli landa, bættum og auknum samgöngum og sífellt vaxandi flutningi afurða milli landa, geta smitsjúkdómar komið upp nánast hvar sem er þrátt fyrir margvíslegar varúðarráðstafanir til að koma í veg fyrir slíkt. Þrátt fyrir einangrun landsins gætu því alvarlegir sjúkdómar komið upp í búfé hér á landi. Miklu skiptir að fyrir hendi séu góðar viðbragðsáætlanir, allir þekki sitt hlutverk og kunni vel til verka svo viðbrögð séu hröð og markviss. Vel skipulögð og skjót viðbrögð strax og grunur vaknar um alvarlegan smitsjúkdóm gera gæfumuninn eigi að takast að koma í veg fyrir útbreiðslu hans og það tjón sem af myndi hljótast. Mjög mikilvægur liður í slíkum viðbúnaði er að æfa viðbrögðin.

Á undanförnum mánuðum hefur starfshópur á vegum yfirdýralæknis unnið að undirbúningi slíkrar æfingar og hefur nú verið ákveðið að hún skuli haldin dagana 18. til 20. mars næstkomandi. Þrír erlendir sérfræðingar með mikla reynslu af smitsjúkdómafaröldrum, koma að skipulagningu æfingarinnar og halda fyrirlestra. Ríkisstjórn Íslands, Framleiðnisjóður landbúnaðarins, PharmaNor, Framkvæmdanefnd búvörusamninga, Vátryggingarfélag Íslands og FAO veita yfirdýralæknisembættinu styrk til að halda æfinguna. Gert er ráð fyrir að fjöldi þátttakenda verði um 50, þeir eru m.a. héraðsdýralæknar, sérgreinadýralæknar, yfirdýralæknir og fulltrúar Tilraunastöðvar HÍ á Keldum, landbúnaðarráðuneytis og lögreglu.

Skipulag æfingarinnar verður þannig að fyrstu tvo dagana verða haldnir fyrirlestrar og skrifborðsæfingar en verkleg æfing verður síðan haldin í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri þriðja daginn. Æfðar verða m.a. boðleiðir, ákvarðanataka og útgáfa formlegra tilkynninga um aðgerðir til varnar útbreiðslu smits, sýnatökur, sending sýna, ákvarðanataka um aðferðir við slátrun, förgun, þrif, sótthreinsun o.fl.

Viðbragðsáætlanir