TILKYNNINGAR OG FRÓÐLEIKUR


1. júlí 2004

Erindi haldið á hátíðarfundi D.Í. 26. júní 2004 á Selfossi í tilefni af 70 ára afmæli félagsins

Halldór Runólfsson, yfirdýralæknir.

Framtíðarsýn dýralækna- og dýraverndarmála í Evrópu

Í upphafi vil ég þakka Dýralæknafélagi Íslands fyrir þann heiður að vera boðið að halda hér hátíðarfyrirlestur í tilefni af 70 ára afmæli félagsins.

Þó að heiti þessa fyrirlesturs sé framtíðarsýn dýralækna- og dýraverndarmála í Evrópu, þá er nauðsynlegt við slíka samantekt að skoða aðeins farinn veg til að geta metið framtíðarstefnuna. Á 70 ára afmæli D.Í. er því vel við hæfi að minnast þess að okkar góða staða í dag hér á landi varðandi dýrasjúkdóma og dýravernd byggir að miklu leiti á vinnu okkar félagsmanna í gegnum tíðina.

Segja má að dýralæknum hafi lengi verið ljóst samhengið á milli þess að góður aðbúnaður dýra væri nauðsynlegur þáttur í að viðhalda heilbrigði dýranna.

En það er ekki fyrr en á síðustu árum að menn hafa almennt gert sér grein fyrir mikilvægi þessara þátta til að stuðla að framleiðslu heilbrigðra matvæla.

Ég ætla hér að gera að umtalsefni aðild Íslendinga að nokkrum alþjóðastofnunum, sem ég tel að hafi þegar og muni hafa í framtíðnni enn meiri áhrif bæði hér á landi og í Evrópu á dýralækningar, dýravernd, dýraheilbrigði og matvælaöryggi.

Íslendingar hafa lengi verið virkir þátttakendur í Norrænu samstarfi, m.a. hafa íslenskir dýralæknar tekið þátt í NK Vet nefndinni sem fjallar um ýmis mál er varða dýr og dýralækningar. Þess má geta að fyrir nokkrum árum hélt þessi nefnd ágæta ráðstefnu í Hveragerði. Á þessu ári fara Íslendingar með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og í október n.k. er fyrirhuguð stór ráðstefna í Reykjavík sem fjalla á um matvælaöryggi. Norræna samstarfið hefur gengið í gegnum breytingarskeið á undanförnum árum, þegar hver þjóð af annarri gekk í Evrópusambandið, fyrst Danir og síðar Finnar og Svíar. Norðmenn hafa tekið yfir alla löggjöf ESB á sviði dýraheilbrigðis og matvælaöryggis og gætu átt stutt í að gerast aðilar að ESB. En nú á síðustu árum hafa Norðurlandaþjóðirnar gert sér enn betri grein fyrir mikilvægi þess að vinna saman til að geta betur í framtíðinni komið á framfæri norrænum sjónarmiðum, m.a. í Evrópusambandinu þar sem nú hafa bæst við nýlega 10 nýjar þjóðir og fleiri eru væntanlegar. Ég tel því að við eigum að efla þátttöku okkar í norrænu samstarfi og íslenskir dýralæknar m.a. hjá embætti yfirdýralæknis hafa á síðustu árum tekið aukin þátt í því.

Telja verður að ákvörðun Íslendinga að semja við Evrópusambandið um Evrópska efnahagssvæðið, eða EES, sem tók gildi 1994 hafi haft og muni hafa mjög mikil áhrif hér á landi á næstu árum. Þó að við séum enn með undanþágur frá því að innleiða flestar tilskipanir ESB um lifandi dýr og búfjárafurðir, þá höfum við samt orðið að aðlaga okkar lög og reglugerðir til að halda gangandi útflutningi á afurðum okkar. Erfitt er á þessum tímapunkti að sjá fyrir hvernig okkar mál munu þróast varðandi þessi mál, en óhætt er að segja að það verði gífurlegt hagsmunamál okkar að þurfa ekki að innleiða tilskipanir um frjálsan innflutning á lifandi dýrum. Við höfum í sögu okkar fjölmörg dæmi um að dýr sem voru talin heilbrigð í sínum löndum, báru með sér sjúkdóma þegar þau voru flutt til landsins.
Ekki er síður mikilvægt að gera sér grein fyrir að aðild okkar að EES hefur í för með sér mun frjálsari aðgengi útlendinga á okkar vinnumarkað sem einnig nær til dýralækna. Við höfum þegar nokkra erlenda dýralækna starfandi hér á landi, sem hafa lagt á sig að læra okkar mál og eru að leggja fram mikilvæga vinnu hér. Með stækkun EES með tilkomu 10 nýrra ESB landa eigum við eftir að sjá meiri áhuga dýralækna í þessum löndum að koma til starfa í Vestur Evrópu, þ.m. t. til Íslands.

Íslendingar gerðust aðilar að Alþjóða dýraheilbrigðismálastofnuninni OIE Í París fyrir mörgum árum. Stofnunin hefur starfað síðan 1924 og nú eiga 167 lönd aðild að stofnuninni. Helstu verkefni stofnunarinnnar er að afla upplýsinga um dýrasjúkdóma í aðildarlöndunum, halda skrá yfir hvaða sjúkdómar finnast og miðla upplýsingum milli landanna. Haldin er sérstök skrá um skilgreiningar á dýrasjúkdómum, hvernig þeir lýsa sér, hvaða rannsóknum á að beita til að greina þá og ef bóluefni er til við sjúkdóminum, þá eru gefnar út viðmiðanir þ.a.l.
OIE hefur nýlega sett í gang vinnu bæði um dýravernd og hins vegar um matvælaöryggi við eldi þeirra dýra sem haldin eru til matvælaframleiðslu. Síðar munu niðurstöður þessarar vinnu verða tengdar saman til að búa til viðmiðunarreglur um hvernig góður aðbúnaður dýra og dýravernd eigi að stuðla að betra heilbrigði dýranna og meira öryggi matvælanna sem frá þeim koma.
Þessi stofnun hefur einnig verið að vinna að alþjóðlegri úttekt á starfsemi opinberra stofnana, sem hafa sama hlutverk og Embætti yfirdýralæknis. Slíkri starfsemi er komið fyrir með ýmsum hætti í heiminum en OIE taldi mikilvægt að kortleggja starfsemina og benda á þýðingu þess að slík embætti hafa miklu hlutverki að gegna við að halda niðri og útrýma dýrasjúkdómum í sínum löndum og einnig að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma til annarra landa með alþjóðlegri verslun með dýr og matvæli. Búast má við að OIE muni beita sér í auknum mæli á þessu sviði í framtíðinni við að styrkja slíka opinbera starfsemi, sérstaklega í löndum þar sem hún á í vök að verjast af ýmsum ástæðum svo sem efnahagslegum og stjórnmálalegum aðstæðum. OIE hefur einnig fjallað um það mikilvæga hlutverk, sem starfsemi sjálfstætt starfandi dýralækna hefur bæði á sviði dýralækninga og dýraverndar og ekki síst að vera útvörður í opinbera kerfinu varðandi vöktun dýrasjúkdóma. Þessi starfsemi mun sífellt verða mikilvægari í framtíðinni.

Eins og áður sagði þá var ákveðið fyrir nokkrum árum af nefnd yfirdýralækna í OIE, að stofnunin skyldi gera bætta dýravernd að einu af helsta baráttumáli sínu og að komast að samkomulagi um framsetningu á alþjóðlega viðurkenndum stöðlum um dýravernd. Í febrúar síðast liðnum var haldin alþjóðleg ráðstefna í París til að fara yfir þá vinnu sem þegar hefur verið unnin á vegum ýmissa nefnda sem stofnunin setti á laggirnar í þessu sjónarmiði. Þar kom fram að sjónarmið aðildarlandanna um dýravernd eru afar ólík, enda mikill munur á milli þróaðra og vanþróaðra ríkja og síðan geta trúarbrögð og fleiri þættir haft áhrif á sjónarmið varðandi dýravernd. Í sumum löndum virðist óraunhæft að gerar ríkar kröfur um dýravernd, þegar fólki í þessum löndum er misþyrmt, svo sem með pyntingum. Í enn öðrum löndum eru dýr ennþá aðalatvinnutækið til dráttar á plógum og kerrum.

Þrátt fyrir öll þau vandamál sem blasa við í heiminum á þessu sviði, þá var niðurstaða ráðstefnunnar sú, að áfram skyldi halda við að ná fram alþjóðlega viðurkenndum stöðlum sem hægt væri að framfylgja alls staðar. Fram kom á ráðstefnunni að til að ná sem bestum árangri í dýraverndarmálum þá skifti verulegu máli að allri umfjöllun um dýraverndarmál væri þannig komið fyrir í stjórnsýslunni að þau heyrðu undir eitt ráðuneyti, ein lög og eina stofnun. Í mínum huga er ekki vafi á að stefna ber að slíkri stjórnsýslu hér á landi.

Alþjóðaviðskiptastofnunin WTO í Genf er ein af þeim alþjóðastofnunum sem Ísland er aðili að. Einn af stofnsamningum WTO heitir SPS eða Sanitary and Phyto Sanitary Agreement og fjallar um heilbrigði dýra og plantna og hvernig megi beita ákvörðunum á þessu sviði til að stýra út- og innflutningi aðildarlandanna. Stofnunin, sem byggð var á eldri stofnun sem hétt GATT, fór í gang 1994 og hefur Embætti yfirdýralæknis frá upphafi sinnt þessari vinnu fyrir Íslands hönd.

Eitt af hlutverkum OIE er að vera ein af þeim stofnunum sem Alþjóðaviðskiptastofnunin WTO í Genf hefur tilnefnt til að koma með staðla um dýrasjúkdóma, sem hægt væri að styðjast við í alþjóðaviðskiptum. WTO hefur enn ekki ákveðið að hægt sé að nota dýravernd sem ákvarðandi þátt, þegar leysa þarf deilumál á milli ríkja um viðskifti. En augljóst er að mismunandi stig dýraverndar í löndum sem eru að flytja út búfjárafurðir getur haft veruleg áhrif á samkeppnishæfni landanna. Ef slæm dýravernd er liðin í einu landi, t.d. varðandi framleiðslu á svína- og alifuglakjöti þá getur það land boðið fram mun ódýrari kjöt á alþjóðlegum markaði.
Talið er augljóst að WTO verði í framtíðinni að taka tillit til dýraverndar við ákvarðanir í deilumálum ríkja á milli og þá munu það verða staðlar frá OIE sem verða lagðir til grundvallar.

Dýravernd er málefni sem á eftir að vera meira áberandi á næstu árum. Evrópa hefur löngum haft forystu á þessu sviði og þar má nefna Svía sem sérstaka forystumenn. Í Svíþjóð hefur dýravernd verið tekin mjög alvarlega í áratugi og ekki er hægt annað en að minnast barnabókahöfundarins Astrid Lindgren, sem hefur haft gífurleg áhrif í Svíþjóð og víðar með baráttu sinni fyrir betri meðferð á dýrum. Evrópráðið í Strassborg hefur í áratugi sett fram staðla um mjög margt sem varðar dýravernd, svo sem um flutninga á dýrum til slátrunar og notkun tilraunadýra. Þátttaka okkar í þessari vinnu hefur verið mjög takmörkuð hingað til, en þyrfti að aukast ef við viljum láta taka mark á okkur í þessum málaflokki í framtíðinni.

Þó ég telji að dýraverndarmálum hafi almennt verið vel sinnt í Evrópu, þá eru enn mikil verkefni framundan þar eins og í öðrum heimsálfum við að koma dýraverndarmálum í gott horf. Nefna má sem dæmi að í Evrópu er nautaat enn liðið á Spáni og það viðgangast mjög langir flutningar á dýrum til slátrunar, t.d. á kindum frá Skotlandi og Írlandi allar götur í gegnum Frakkland og Ítaliu og síðast með skipum yfir til Grikklands. Hross eru einnig flutt langar leiðir til slátrunar, t.d. frá Eystrasaltslöndunum og lýðveldum fyrrum Sovétríkjanna alla leið til Suður - Ítalíu – oft við illan aðbúnað.


Í Evrópu hafa á undanförnum árum orðið umtalsverðar breytingar á skipun dýralæknamála og má í þessu sambandi nefna að embætti yfirdýralækna í Danmörku og Noregi hafa verið sameinuð öðrum matvælaeftirlitsstofnunum. Þessar stofnanir eru tilheyrandi landbúnaðarráðuneytum landanna að miklu eða öllu leiti. Svipuð þróun er víðar í gangi í Evrópu og stór Evrópuráðstefna um þessi mál, sem ég sótti og haldin var í Budapest 2002, komst að þeirri niðurstöðu að sameina ætti sem mest allt matvælaeftirlit hjá einu ráðuneyti, hafa ein lög og láta eina stofnun fara með framkvæmd laganna og alls eftirlits.

Þróun matvælalöggjafar hjá ESB hefur þegar haft og mun hafa mikil áhrif í þá átt að fjallað skuli með samræmdum hætti um matvælaframleiðsluna frá hafi og haga til maga. Að þessari þróun þurfa dýralæknar hvarvetna í álfunni að aðlaga sig, ef þeir eiga að eiga möguleika á að halda á lofti sinni menntun og starfsreynslu á þessu sviði. Benda má á að norskir dýralæknar sem um árabil hafa gegnt lykilhlutverkum í norsku matvælaeftirliti telja sig hafa víða orðið undir við ákvarðanatökur í hinni nýju norsku matvælastofnun sem kölluð er Mattilsynet. Þar er forðast að nefna orðið veterinær í nafni á stofnuninni og heitum á helstu embættum innan kerfisins.

Mjög mikil áhersla er nú lögð á að öll vinna bæði við stjórnun dýrasjúkdóma og matvælaeftirlits sé byggð á aðferðarfræði áhættumats, sem greinist í áhættugreiningu, stjórnun áhættunnar og miðlun upplýsinga um áhættur. Meðal annars er slík aðferðarfræði innbyggð í SPS samning WTO. Ný stofnun hefur verið búin til í ESB – EFSA – European Food Safety Authority til að annast slík mál fyrir aðildarlönd ESB. Síðan þurfa löndin líka að eiga sínar eigin stofnanir og í Danmörku er komin mjög merkileg stofnun á þessu sviði, sem er byggð á grunni gömlu Dýrasjúkdómastofnunarinnar - Statens Serum Institutt. Þessi danska stofnun hýsir einnig hina Dönsku Súnu stofnun (Zoonosis Center), en Súnur er íslenskt orð yfir þá sjúkdóma sem geta borist á milli dýra og manna. Þessi stofnun fjallar einnig um notkun dýralyfja og haldin er landsskrá þ.a.l. og einnig um tíðni bakteríustofna sem komnir eru með ónæmi fyrir ýmsum sýklalyfjum.

Ég minnist á þessi atriði hér, þar sem ég tel að þau munu hafa mjög aukin áhrif á starfsemi dýralækna í framtíðinni. Þörf verður fyrir þátttöku dýralækna í auknum mæli í umfjöllun um þá sjúkdóma sem geta borist á milli manna og dýra, en talið er að alls geti um þrír fjórðu allra sjúkdómsvaldandi örvera sýkt bæði dýr og menn. Þess má einnig geta að mjög aukin umræða er víða um heim um hættuna af hryðjuverkum þar sem notast verði við sjúkdómsvaldandi örverur og þá er iðulega verið að tala um þekkta dýrasjúkdómavalda og súnu eins og miltisbrand.Menn tala um Agri - terror eða landbúnaðar hryðjuverk í því sambandi. Það má því vel vera að í framtíðinni verði opinber starfsemi dýralækna öll færð til heilbrigðisráðuneyta viðkomandi landa, þar sem þeirra vinna verði talin koma best að gagni með þátttöku í heilbrigðiskerfinu fyri mannfólkið, en slíkt fyrirkomulag mun þegar vera komið á í Belgíu.

Mikið verkefni er því fyrir höndum hjá öllum dýralæknum að aðlaga sig að breyttum aðstæðum í framtíðinni og því verða bæði opinberir aðilar og félagasamtök að efla hvers konar endurmenntun á þessu sviði.
Víða eins og t.d. í Ameriku hefur það tíðkast lengi að dýralæknar verði að sinna opinberum kröfum um að viðhalda þekkingu sinni með reglubundinni endurmenntun, og á síðasta ári kom einmitt bandaríkst fyrirtæki með slíkt námskeið hingað. Búast má við að slíkar kröfur verði mun algengari í Evrópu í framtíðinni.
Fram hefur komið að hestaráðstefna D.Í. sem nú fer hönd er viðurkennd af norrænu dýralæknafélögunum sem liður í endurmenntun þeirra félagsmanna.

Ég tel því að framtíð dýralækna- og dýraverndarmála sé björt og það séu mörg spennandi verkefni sem bíða dýralækna, bæði hér á landi og í öðrum Evrópulöndum.

En að lokum skulum við minnast þess að:

FRAMTÍÐIN ER ÞEIRRA SEM BÚA SIG UNDIR HANA.