TILKYNNINGAR OG FRÓÐLEIKUR


22. júlí 2004

Orðsending til bænda, búnaðarsambanda og dýralækna vegna flutnings á líffé milli varnarhólfa haustið 2004.

Ath! Orðalagi breytt frá fyrri auglýsingu vegna gæðastýringar í sauðfjárrækt.

LÍFLÖMB VEGNA FJÁRSKIPTA

Bændur, sem vilja kaupa líflömb vegna fjárskipta á komandi hausti þurfa að senda skriflega pöntun með milligöngu viðkomandi búnaðarsambands fyrir 1. ágúst 2004. Þeir einir koma til greina, sem lokið hafa fullnaðarsótthreinsun og frágangi húsa, umhverfis og annars, sem sótthreinsa átti. Skal tekið fram í umsókninni hver vottaði sótthreinsun og hvenær. Umsóknir sem berast eftir júlílok verða ekki teknar með.

LAMBHRÚTAR VEGNA KYNBÓTA

Til svæða þar sem riðuveiki er og allur flutningur fjár til lífs milli bæja er óheimill þess vegna eða til einstakra bæja með sérstök vandamál, verður leyft að kaupa hrútlömb til kynbóta frá ósýktum svæðum. Skilyrði eru þau, að allt fé væntanlegs kaupanda hafi verið einstaklingsmerkt og skráð í skýrsluhaldi fjárræktarfélaganna eins og gerðar eru kröfur um í gæðastýringu í sauðfjárrækt. Umsóknir skulu sendar viðkomandi búnaðarsambandi, sem staðfestir merkingu og skráningu á viðkomandi bæ og gefur allar nánari upplýsingar og leiðbeiningar um líflambasvæði.

Umsóknir skal senda til Rannsóknadeildar embættis yfirdýralæknis, Keldum v/Vesturlandsveg, 112 Reykjavík.

Sprauta skal öll lömbin tvisvar sinnum fyrir flutning, með sníkjudýralyfi, samþykktu af yfirdýralækni.

Að gefnu tilefni er áréttað að flutningur á sauðfé og geitum milli varnarhólfa (yfir varnarlínur)er stranglega bannaður án skriflegs leyfis yfirdýralæknis, samkvæmt lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, ásamt seinni breytingum, og skv. reglugerð nr. 651/2001 um útrýmingu á riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar. Ennfremur er með öllu óheimilt að versla með kindur (unglömb sem eldra fé) eða flytja fé til lífs á milli bæja á svæðum þar sem riða hefur komið upp á síðustu 20 árum.

Héraðsdýralæknar gefa nánari upplýsingar um heilbrigðisástand í umdæmum sínum.
Umsóknum verður svarað fyrir ágústlok. Leyfi ræðst af heilsufari fjár á sölusvæðinu, þegar kemur að flutningi hverju sinni