TILKYNNINGAR OG FRÓÐLEIKUR


4. júní 2004

Fréttatilkynning um smitandi augnsýkingu í hrossum

Rannsóknir á smitandi augnsýkingu sem borið hefur á í hrossum hér á landi frá því um páska hafa nú leitt í ljós að sýkingin er að öllum líkindum af völdum hesta-adenóveiru, týpu 1 (Equine Adenovirus type 1). Veirutegund þessi hefur ekki áður greinst í hrossum hér á landi og miðað við hversu hratt sýkingin hefur breiðst út verður að teljast afar líklegt að hún hafi borist til landsins í fyrsta sinn nú í vetur.

Veiran veldur vægri sýkingu í slímhimnu augnanna sem gengur alla jafna yfir á nokkrum dögum. Ekki hefur verið tilkynnt um alvarlegar aukaverkanir eða að sýkingin skilji eftir sig varanleg mein í augum hrossa. Í ljósi þessa var ákveðið að grípa ekki til neinna aðgerða til að hindra útbreiðslu sjúkdómsins, en eigendum ráðlagt að fylgjast vel með hrossunum og hlífa þeim við álagi.

Sjúkdómurinn er ekki tilkynningarskyldur til Alþjóðadýraheilbrigðisstofnuninnar, OIE, enda er veiran landlæg víða um heim. Hann hefur því ekki áhrif á hrossaútflutning. Engu að síður er litið svo á að sýking þessi sé áminning um að alvarlegri smitsjúkdómar geti borist í hrossastofninn haldi menn ekki vöku sinni hvað varðar smitvarnir.

Hestamenn eru sá hópur ferðamanna sem hættast er við að beri smitsjúkdóma í íslenska hrossastofninn með óhreinindum sem kunna að leynast í fatnaði og öðrum búnaði sem tengist hestamennsku.
Af þessu tilefni eru hestamenn nú enn og aftur minntir á að innflutningur á notuðum reiðtygjum er með öllu bannaður. Einnig er bannað að koma með til landsins notaðan reiðfatnað sem ekki er hægt að sótthreinsa. Þetta á við um reiðskó og reiðstígvél úr leðri, leðurjakka, leðurhanska og vaxborinn fatnað sem notaður hefur verið í hestamennsku. Einnig á þetta við um reiðhjálma. Aðeins er heimilt að koma með notaðan reiðfatnað til landsins sem þveginn hefur verið í þvottavél eða þurrhreinsaður og skófatnað sem hefur verið sótthreinsaður. (Nánari upplýsingar um sótthreinsun). Þeir sem eiga von á erlendu ferðafólki eru vinsamlegast beðnir að upplýsa þá um þessar reglur sem einnig er að finna á ensku á vef yfirdýralæknis.

Nánari upplýsingar veitir dýralæknir hrossasjúkdóma hjá Embætti yfirdýralæknis, Sigríður Björnsdóttir í síma
893 0824.