TILKYNNINGAR OG FRÓÐLEIKUR


16. mars 2004

Námskeið og æfing í viðbrögðum við smitsjúkdómum í dýrum

Dagana 18. – 20. mars verður haldið námskeið og æfing, á vegum yfirdýralæknis-embættisins, í viðbrögðum við smitsjúkdómum í dýrum.

Námskeiðið verður haldið á fimmtudag og föstudag í húsakynnum PharmaNor að Hörgatúni 2 í Garðabæ en verkleg æfing verður á Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og Fjárræktarbúinu Hesti á laugardag.

Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, mun flytja ávarp í upphafi námskeiðsins, sem hefst klukkan 10, fimmtudaginn 18. mars.

Á námskeiðinu verður fjallað um flest atriði sem reynir á og taka þarf ákvarðanir um þegar upp kemur grunur um alvarlegan smitsjúkdóm í dýrum. Þar má nefna boðleiðir og aðgerðir til varnar útbreiðslu smits, sýnatökur, sendingu sýna, aðferðir við slátrun, förgun, þrif, sótthreinsun o.fl. Þrír erlendir sérfræðingar, með mikla reynslu af smitsjúkdómum, munu bera hitann og þungann af kennslu á námskeiðinu en auk þeirra munu íslenskir sérfræðingar fjalla um það sem tengist aðstæðum hér á landi.

Verklega æfingin er eingöngu fyrir héraðsdýralækna og aðra starfsmenn yfirdýralæknis og mun snúast um grun um gin- og klaufaveiki á Hvanneyri og Hesti. Unnið verður eftir áætlun yfirdýralæknisembættisins um viðbrögð við smitsjúkdómum.

Hætta á að alvarlegir smitsjúkdómar í dýrum komi upp hér á landi, er ávallt til staðar. Reynslan sýnir að með auknum ferðum fólks milli landa, bættum og auknum samgöngum og sífellt vaxandi flutningi afurða milli landa, geta smitsjúkdómar komið upp nánast hvar sem er þrátt fyrir margvíslegar varúðarráðstafanir til að koma í veg fyrir slíkt.

Komi upp grunur um alvarlegan smitsjúkdóm skiptir miklu að allir þekki sitt hlutverk og kunni vel til verka svo viðbrögð séu hröð og markviss. Það getur gert gæfumuninn við að koma í veg fyrir útbreiðslu smitsins og draga úr því tjóni sem af myndi hljótast. Lítið hefur reynt á þetta hér á landi og því nauðsynlegt að æfa viðbrögðin við tilbúnar aðstæður.

Starfshópur á vegum yfirdýralæknis hefur skipulagt námskeiðið og æfinguna, með aðstoð sérfræðings frá Danmörku sem hefur mikla reynslu í framkvæmd slíkra æfinga víða um heim.

Nánari upplýsingar gefur Auður Lilja Arnþórsdóttir dýralæknir í síma 433-7016.

Viðbragðsáætlanir