TILKYNNINGAR OG FRÓÐLEIKUR


6. september 2004

Smyglaður hundur með hundaæði í Frakklandi

Þann 21. ágúst sl. drapst 4 mánaða gömul tík úr hundaæði í Frakklandi. Hvolpurinn var ekki bólusettur gegn hundaæði og hafði verið smyglað inn í Frakkland frá Agadir í Marokkó. Eigandinn hafði fundið hvolpinn þar og tekið hann með til Frakklands gegnum Spán þann 11. júlí. Hvolpurinn dó 21. ágúst eftir að hafa sýnt einkenni hundaæðis frá 18. ágúst og dagana 2.-21. ágúst komst hvolpurinn í snertingu við stóran hóp fólks og hunda. Þessi náni samgangur hefur þegar kostað 29 hunda lífið. Meðhöndla hefur þurft nokkrar manneskjur sem komust í návígi við hvolpinn.

Búið er að staðfesta að hvolpurinn var sýktur af hundaæðisvírus af Marokkóskum uppruna (Africa 1a-Morocco), auk þess hafa eftirtalin héruð í Frakklandi verið skilgreind sem hættusvæði vegna hundaæðisí 3 mánuði; Bordeaux, Hostens, Léognan, Gradignan, Libourne, Périgueux og Miramont-de-Guyenne. Þessar ráðstafanir fela ekki í sér neinar takmarkanir á ferðum hunda sem eru löglega bólusettir en óbólusetta hunda má ekki fara með milli svæða, á hundasýningar o.s.frv.

Mál þetta sýnir svo ekki verður um villst, áhættuna sem felst í því að smygla hundum frá löndum með hundaæði til annarra landa. Nú þegar hafa nærri 3 tugir hunda látið lífið vegna þessa eina tilfellis eins og áður segir. Hundaæði er sá dýrasjúkdómur sem allar þjóðir heims reyna að verjast eftir öllum tiltækum leiðum vegna eðlis sjúkdómsins; langur sýkingarferill og að sjúkdómurinn getur borist í fólk við bit.

Fréttin á vef WHO

Upplýsingar um innflutning gæludýra til Íslands