TILKYNNINGAR OG FRÓÐLEIKUR


8. september 2004

Veikindi í hvolpum

Að undanförnu hefur borið meira á veikindum hjá hvolpum en eðlilegt er. Hvolparnir verða mjög slappir og fá uppköst og niðurgang. Nokkrir hafa drepist en flestir ná sér eftir nokkurra daga meðhöndlun. Sumir hvolpanna hafa haft einkenni sem geta bent til lifrarbólgu, en engin slík tilfelli hafa verið staðfest nýlega. Grunur beinist því aðallega að öðrum veirusýkingum, þó lifrarbólga hafi ekki verið útilokuð. Um nokkurn tíma hafa hundar ekki verið bólusettir gegn lifrarbólgu, því hverfandi hætta hefur verið talin á smiti. Komi hins vegar upp sterkur grunur um lifrarbólgusmit verður bólusetning alvarlega íhuguð. Yfirdýralæknir hefur hvatt dýralækna til að senda sýni til rannsókna á Keldum og upplýsingar um sjúkdómstilfellin til sóttvarnadýralæknis. Á meðan ekki er vitað hvað veldur þessari veiki, ættu eigendur að forðast að fara með hvolpana sína á staði þar sem mikið er af ókunnugum hundum. Finnist skýring verður hún tilkynnt og einnig ef nýjum tilfellum fækkar verulega.

Nánari upplýsingar veitir Auður Lilja Arnþórsdóttir, sóttvarnadýralæknir hjá embætti yfirdýralæknis í síma 433 7016 eða 899 3002.