TILKYNNINGAR OG FRÓÐLEIKUR


10. september 2004

Fréttatilkynning um niðurgangspest í hundum

Í morgun var haldinn fundur með sjálfstætt starfandi dýralæknum, héraðsdýralæknum og sérfræðingum frá Keldum, þar sem fjallað var um tilfelli sem komið hafa upp af alvarlegri niðurgangspest í hundum.

Út frá einkennum og niðurstöðum rannsókna á sýnum er líklegast að um smáveirusótt sé að ræða, sem orsakast af parvoveiru. Nokkrir tugir hunda hafa veikst en aðeins örfáir hafa drepist. Fjórir hundar hafa verið krufðir og var parvosýking staðfest. Áfram verður fylgst með framgangi veikinnar, upplýsingum safnað og sýni rannsökuð. Yfirdýralæknir hvetur dýraeigendur til að gæta þess að hafa bólusetningu hunda sinna ávallt í lagi og leita ráða hjá sínum dýralæknum. Ekkert bendir til þess á þessari stundu að þörf sé á bólusetningu gegn öðrum sjúkdómum, svo sem smitandi lifrarbólgu.

Nánari upplýsingar veitir Auður L. Arnþórsdóttir sóttvarnadýralæknir hjá embætti yfirdýralæknis í síma 899 3002.