TILKYNNINGAR OG FRÓÐLEIKUR


3. júlí 2003

Ný reglugerð um slátrun og meðferð sláturafurða

Ný reglugerð um slátrun og meðferð sláturafurða tekur gildi 1. janúar 2004 nema ákvæði um hangandi fláningu en varðandi hana er gert ráð fyrir 5 ára aðlögunartíma. Þó taka ný ákvæði um heilbrigðismerkingu afurða gildi 15. ágúst næstkomandi.

Landbúnaðarráðherra skipaði 26. janúar árið 2000 nefnd þriggja sérfræðinga til að endurskoða þrjár reglugerðir. Um var að ræða reglugerð um útbúnað sláturhúsa, reglugerð um slátrun, mat og meðferð sláturafurða og loks reglugerð um heilbrigðisskoðun á sláturafurðum. Við endurskoðun reglugerðanna var haft að leiðarljósi að reglur á þessu sviði væru sambærilegar hér á landi og í nágrannalöndunum.

Vegna útflutningsleyfa fyrir sláturhús er nauðsynlegt að íslenskar reglur séu sambærilegar reglum nágrannaþjóðanna, sem við flytjum sláturafurðir til. Jafnframt verður að tryggja íslenskum neytendum að hér á landi séu gerðar að minnsta kosti jafnmiklar kröfur og í nágrannalöndunum varðandi slátrun, meðferð afurða og heilbrigðiseftirlit með þeim.

Helstu nýmæli í reglugerðinni eru að löggilding og starfsleyfi er aðskilið.
Landbúnaðarráðuneyti löggildir sláturhús og kjötgeymslur til fimm ára í senn að fenginni umsögn yfirdýralæknis. Rekstraraðili sláturhúss, sláturleyfishafi, skal hafa sláturleyfi frá embætti yfirdýralæknis. Sækja skal um sláturleyfi áður en starfsemi hefst og þegar eigendaskipti verða. Skilyrði fyrir því að sláturleyfishafi fái sláturleyfi eru m.a. þau að hann eigi eða hafi samning um notkun á löggiltu sláturhúsi vegna starfseminnar og að hann starfræki innra eftirlit samkvæmt reglugerð.

Ný ákvæði eru um heilbrigðismerki og um kjötpökkunarstöðvar og nánari og ítarlegri ákvæði um fyrirkomulag og búnað vinnslustöðva og um hreinlæti við slátrun og meðferð afurða.

Stærstu sláturhúsin hér á landi vinna nú þegar eftir þessum reglum vegna útflutnings og eðlilegt sömu reglur gildi fyrir alla.

Reglugerð nr. 461/2003 um slátrun og meðferð sláturafurða