TILKYNNINGAR OG FRÓÐLEIKUR


23. júní 2003

Nýjar reglugerðir um einangrunarstöðvar og innflutning gæludýra

11. júní sl. gaf landbúnaðarráðuneytið út tvær reglugerðir, annars vegar reglugerð um innflutning gæludýra og hundasæðis og hins vegar reglugerð um einangrunarstöðvar og sóttkvíar fyrir gæludýr. Báðar reglugerðirnar tákna miklar breytingar fyrir innflytjendur gæludýra auk þess sem núna er í fyrsta sinn heimilt að flytja inn hundasæði.

Innflutningur

Innflutningur gæludýra (og hundasæðis) er áfram háður leyfi landbúnaðarráðuneytis og skilyrðum yfirdýralæknis eins og þau koma fram í reglugerðinni. Teknar hafa verið saman leiðbeiningar og skýringar fyrir innflytjendur til að skýra ferlið við innflutninginn.

Helstu viðbætur við eldri reglur vegna innflutnings eru sem hér segir

Hundar  
  Leptóspírósa bólusetning
  Brucella canis blóðpróf
Kettir  
  Kattaalnæmi (FIV) blóðpróf
  Kattahvítblæði (FeLV) blóðpróf
Hundar og kettir  
  Salmonella rannsókn
  Hundaæði (rabies) tíminn sem líða þarf frá fyrstu hundaæðisbólusetningu (varðar hunda/ketti frá löndum með hundaæði) er lengdur úr einum mánuði í fjóra. Mæla þarf mótefni eftir sem áður.
   
   

Á móti kemur að dvöl í einangrunarstöð er stytt úr átta vikum (og sex vikum fyrir lönd án hundaæðis) í fjórar vikur óháð útflutningslandi dýrsins. Því má segja að með því að auka kröfur um bólusetningar og rannsóknir sem framkvæma skal í heimalandi dýranna fyrir innflutning er unnt að stytta einangrunartímann til muna, án þess að auka áhættuna við innflutninginn. Kanínur, nagdýr, búrfuglar, skrautfiskar og vatnadýr skulu dvelja í heimasóttkví í 4 vikur eftir komuna til landsins.

Héraðsdýralæknir skal skoða öll dýr og fylgigögn þeirra við komu þeirra til landsins áður en dýrið fer áfram inn í landið til dvalar í einangrunarstöð. Einungis er heimilt að flytja dýr til landsins í gegnum innflutningsstað sem yfirdýralæknir hefur viðurkennt. Áður en dýrin eru útskrifuð úr einangrunarstöðinni eru þau skoðuð á ný af héraðsdýralækni sem gengur úr skugga um að öll skilyrði um innflutning dýranna og einangrun þeirra hafi verið uppfyllt.

Innflutningur á hundasæði er nú heimilaður í fyrsta skipti að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Sæðisgjafinn þarf að uppfylla sömu skilyrði um bólusetningar og blóðpróf eins og um væri að ræða innflutning á hundinum sjálfum.

Útbúin hafa verið ný umsóknareyðublöð (á íslensku og ensku) og uppruna- og heilbrigðisvottorð (á ensku) sem nota skal við innflutning.

Einangrungarstöðvar og sóttkvíar

Reglugerðin um einangrunarstöðvar og sóttkvíar fyrir gæludýr kveður á um kröfur sem gerðar eru til einangrunarstöðva og sóttkvía. Landbúnaðarráðuneytið veitir einangrunarstöðvum starfsleyfi og yfirdýralæknir viðurkennir og hefur eftirlit með sóttkvíum (þar með talið heimasóttkvíum).

Sá sem hyggst stofna einangrunarstöð fyrir hunda og ketti skal sækja um leyfi til landbúnaðarráðuneytisins sem síðan leitar umsagnar yfirdýralæknis. Umsókn skal fylgja teikningar af fyrirhugaðri einangrunarstöð samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar auk upplýsinga um menntun og reynslu rekstraraðila.

"Allt inn – allt út": reglugerðin kveður á um að öll dýr sem dvelja samtímis í stöðinni skulu tekin inn á þriggja til fimm daga tímabili og útskrifuð á þriggja til fimm daga tímabili 28 dögum síðar.

Eftir skoðun héraðsdýralæknis á innflutningsstað (flugvelli) er dýrið flutt í einangrunarstöðina af flutningsaðila stöðvarinnar. Um þennan flutning gilda ítarlegar verklagsreglur.

Einangrunarstöð skal ráða/gera samning við dýralækni sem sér um sýnatökur og meðhöndlanir dýranna.

Báðar þessar reglugerðir taka nú þegar gildi en heimilt er að fara eftir eldri reglum um innflutning hunda og katta fram til 1. janúar 2004.

Reglugerð nr. 431/2003 um innflutning gæludýra og hundasæðis
Reglugerð nr. 432/2003 um einangrunarstöðvar og sóttkvíar fyrir gæludýr
Nánari upplýsingar um innflutning gæludýra

Til baka á tilkynningar