TILKYNNINGAR OG FRÓÐLEIKUR


2. september 2003

Óheimilt að flytja inn notaðar landbúnaðarvélar

Vegna fjölmiðlaumræðu undanfarna daga (sjá frétt), vill embætti yfirdýralæknis benda á að innflutningur notaðra landbúnaðarvéla og -tækja er óheimill skv. 10. grein laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim sbr. breytingu með 26. gr. laga nr. 87/1995, og 3. grein reglugerðar nr. 416/2002 j) liðar, um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins.

Innflytjendur geta sótt um undanþágu frá ofangreindum ákvæðum til landbúnaðarráðuneytisins skv. 6. gr. reglugerðar nr. 416/2002, sem þá skal afla umsagnar yfirdýralæknis hverju sinni. Skilyrði sem þá eru sett fram geta verið mismunandi eftir því um hvers konar vél er að ræða, hvaðan hún kemur o.s.frv.

Verklagsreglur embættis yfirdýralæknis varðandi umsóknir sem embættinu berast um innflutning notaðra landbúnaðartækja eru skýrar;

  • tækið skal vera þrifið vandlega og síðan sótthreinsað með viðurkenndum sótthreinsiefnum í útflutningslandinu,
  • þrif og sótthreinsun skulu vottuð af yfirvöldum útflutningslandsins
  • tækið skal flutt beint til Reykjavíkur til tollafgreiðslu
  • tækið skal skoðað af fulltrúum yfirdýralæknis fyrir tollafgreiðslu.
  • séu þrif og sótthreinsun ekki fullnægjandi skal endurtaka verkið áður en viðkomandi tæki hlýtur tollafgreiðslu.
  • við innflutning á gripaflutningavögnum, hestakerrum o.þ.h. skal fjarlægja allt timbur og önnur efni sem ekki verða þvegin svo viðunandi sé.
  • einstaka sinnum er þess krafist að fulltrúi yfirdýralæknis geri úttekt á þrifum og hreinsun í útflutningslandinu áður en útskipun fer fram. Þetta á t.d. við um gripaflutningavagna vegna þess hve flókin og erfið slík farartæki eru í þrifum.