VARNARHÓLF


Varnarsvæði - kortUm varnarlínur og varnarhólf
Þegar útrýming mæðuveiki hófst á fimmta áratugnum voru settar upp varnargirðingar víða um land og hefur þeim verið haldið við.

Flutningur á sauðfé, geitum og nautgripum til lífs yfir varnarlínur er bannaður með lögum vegna hættu á smitsjúkdómum. Yfirdýralæknir getur gefið undanþágu til flutnings á hrútum inn á sæðingarstöðvar og á lömbum vegna fjárskipta og lambhrútum vegna kynbóta, einnig til flutnings á búfé vegna rannsókna.

Yfirdýralæknir getur leyft flutning nautgripa og geita yfir varnarlínur að loknu prófi. Sækja þarf skriflega um leyfi til slíkra flutninga með nokkrum fyrirvara, skv. ákvörðun yfirdýralæknis. Óheimill er flutningur án sérstaks leyfis á heyi, tækjum, torfi o.fl., sem getur borið með sér smitefni milli varnarhólfa.

Heilbrigðisástand búfjár er misgott í einstökum varnarhólfum og getur breyst fyrirvaralaust. Það er því alltaf tekin viss áhætta við flutning milli staða. Yfirdýralæknir getur því bannað flutning innan varnarhólfa, þar á meðal getur hann bannað fjáreigendum á einstökum bæjum eða svæðum heimtöku á eigin fé úr réttum og heimtök frá öðrum bæjum á sama svæði. Þetta á þó einkum við það fé, sem lendir á flakki, þ.e. fer út fyrir hefðbundið samgangssvæði eða eiginlegan afrétt.
Efst á síðu

Aðal- og aukavarnarlínur
Varnarlínur skiptast í aðalvarnarlínur og aukavarnarlínur (merktar A). Eigendur mega taka heim fé sitt yfir aukavarnarlínu úr fyrstu haustréttum eða fjallréttum, nema fyrirmæli hafi verið gefin um annað vegna breytts ástands eða staðbundinna aðstæðna. Ekki má taka heim fé yfir slíkar línur úr seinni réttum eða af einstökum bæjum. Ekki má láta fé til lífs milli bæja yfir neinar varnarlínur, hvorki auka- né aðallínur.
Efst á síðu

Varnarhólf og litamerkingar
Um varnarhólf, sem afmarkast af varnarlínum, gilda sérstakar reglur. Þau hafa hvert sinn lit (sbr. litakort í markaskrá). Þann lit skal nota og ekki annan, ef nautgripir og sauðfé er litamerkt, nema sérstök fyrirmæli séu um annað, (t.d. rauður litur á sýktu fé eða grunuðu fé). Fleiri en eitt varnarsvæði getur verið í sama varnarhólfi. Allir fjáreigendur, hvar sem er á landinu, skulu merkja fé sitt með lituðum eyrnamerkjum áletruðum bæjarnúmeri og svæðistákni (sýslu) til að tryggja betur skil á fé og minnka hættu á smitdreifingu um landið vegna misdráttar. Einstaklingsmerking á búfé verður brátt gerð að almennri skyldu.
Efst á síðu

Flutningur sláturgripa
Flutningur sláturgripa yfir varnarlínur er háður leyfi yfirdýralæknis. Sama gildir um óverkaðar sláturafurðir og óþvegna ull, hey, torf, vélar, tæki, verkfæri og allt það sem varasamt er og óhreinkast hefur á sýktum svæðum.
Efst á síðu

Bannfé
Fé, sem ekki er leyft að flytja heim (bannfé). Fjallkóngar, réttastjórar, hreppstjórar og sláturleyfishafar bera ábyrgð á því að bannfé sé lógað, sýni séu send (til Keldna) og að upplýsingar berist til yfirdýralæknis Skyldur í þessu sambandi hafa fjallkóngar, réttarstjórar og hreppstjórar og sláturhússtjórar fyrir hönd sláturleyfishafa.
Efst á síðu