INNFLUTNINGUR Á DJÚPFRYSTU HUNDASÆÐI TIL ÍSLANDS

Leiðbeiningar fyrir innflytjendur

 
   


Hér er að finna leiðbeiningar fyrir innflytjendur hundasæðis um hvað beri að gera þegar innflutningur er undirbúinn. Þessar upplýsingar ásamt umsóknareyðublöðum og heilbrigðis- og upprunavottorðum er einnig að finna á vef landbúnaðarráðuneytisins.

Innflutningur hundasæðis er óheimill nema að fengnu leyfi landbúnaðarráðherra og uppfylltum skilyrðum reglugerðar nr. 935/2004 um innflutning gæludýra og hundasæðis.

1. Umsókn um innflutningsleyfi - gjald vegna innflutningseftirlits
2. Heilbrigðisvottorð, bólusetningar og blóðsýni
3. Umsögn og samþykkt vottorða
4. Sending sæðis til Íslands - afhending til eiganda
5. Sæðing með innfluttu sæði - tilkynningarskylda
6. Geymsla sæðis
7. Kostnaður við innflutning, öflun vottorða, sýnatökur og eftirlit
   
Mikilvæg heimilisföng, símanúmer og vefsíður
Umsóknareyðublöð, vottorð og fleira


1. Umsókn um innflutningsleyfi – gjald vegna innflutningseftirlits

Smellið hér til að sækja eyðublað sem nota skal til að sækja um leyfi til innflutnings. Innflytjandi skuldbindur sig og staðfestir með undirskrift sinni á umsóknareyðublað að hlíta í hvívetna öllum þeim fyrirmælum sem landbúnaðarráðherra og yfirdýralæknir setja sem skilyrði til innflutnings. Ef ekki verða sérstakar tafir tekur afgreiðsla umsóknar u.þ.b. viku.

Þegar umsóknin hefur verið afgreidd, fær umsækjandi senda tilkynningu um veitingu innflutningsleyfis og innan fjögurra vikna frá dagsetningu þess bréfs skal greiða staðfestingargjald (gjald vegna innflutningseftirlits með hundasæði) að upphæð kr. 10.840. Senda skal afrit af greiðslukvittun til landbúnaðarráðuneytisins (með símbréfi eða tölvupósti). Eftirfarandi er innifalið í gjaldi vegna innflutningseftirlits með hundasæði:

2. Vottun yfirdýralæknis á heilbrigðis- og upprunavottorði.
3. Eftirlit héraðsdýralæknis við móttöku sæðis.

Þegar gjaldið hefur verið greitt fær umsækjandi innflutningsleyfið sent ásamt eyðublöðum fyrir heilbrigðis- og upprunavottorð sem dýralæknir í útflutningslandi dýrsins útfyllir og undirritar. Innflutningsleyfi gildir í eitt ár.

Óheimill innflutningur.
Innflutningsleyfi verður ekki veitt fyrir sæði hunda af eftirfarandi tegundum og blendinga af þeim:
1. Pit Bull Terrier/Staffordshire Bull Terrier
2. Fila Brasileiro
3. Toso Inu
4. Dogo Argentino
5. Sæði af öðrum hundategundum eða blendingum, skv. ákvörðun landbúnaðarráðherra í hverju tilfelli, að fenginni umsögn yfirdýralæknis
6 . Blendinga af úlfum og hundum

Efst á síðu

2. Heilbrigðisvottorð, bólusetningar og blóðsýni

Mikilvægt er að huga snemma að þeim kröfum sem gerðar eru um bólusetningar, blóðsýni o.fl. þar sem tiltekinn tími þarf að líða frá því að bólusett er og þar til taka má sæði úr hundinum til innflutnings. Einungis þau eyðublöð fyrir heilbrigðisvottorð, útgefin af yfirdýralækni, sem innflytjandi fékk afhent ásamt innflutningsleyfinu, eru tekin gild. Dýralæknir sem hefur starfsleyfi í útflutningslandinu skal útfylla og undirrita vottorðið. Vottorðið gildir í 10 daga frá útgáfudegi.

Eftirfarandi skal staðfest í heilbrigðis- og upprunavottorðinu (sjá nánar í sjálfu vottorðinu):

1. Útflutningsland/upprunaland hunds.

2. Innflytjandi: Nafn, kennitala, heimili og símanúmer, auk faxnúmers og netfangs ef við á.

3. Eigandi sæðisgjafa eða umboðsmaður: Nafn, kennitala, heimili og símanúmer, auk faxnúmers og netfangs ef við á.

4. Örmerking: Sæðisgjafi skal vera örmerktur áður en sæðistaka, bólusetningar og blóðpróf fara fram.

5. Nafn, tegund og fæðingardagur sæðisgjafa.

6. Dagsetning sæðistöku. Dýralæknir sem undirritar vottorðið skal hafa tekið sæðið eða verið viðstaddur töku þess.

7. Náttúruleg pörun. Óheimilt er að nota sæðisgjafa í náttúrulega pörun frá því blóðpróf voru tekin og fram að sæðistöku.

8. Smitsjúkdómar (þríþætt; heilbrigðisskoðun, bólusetningar og rannsóknir)

­ Heilbrigðisskoðun: Við heilbrigðisskoðun á síðustu 10 dögum fyrir innflutning má dýrið ekki sýna nein einkenni smitsjúkdóms.

­ Bólusetningar

Bólusetning gegn hundaæði (rabies)
Komi sæðið frá landi með hundaæði, skal sæðisgjafi bólusettur með deyddu bóluefni á síðustu 365 dögum fyrir sæðistöku, og hafa verið að minnsta kosti 12 vikna gamall við bólusetningu. Mæla skal magn mótefnis í blóði í fyrsta lagi 30 dögum eftir bólusetningu og skal það vera að minnsta kosti 0,5 a.e./ml. Mælingarnar skulu framkvæmdar á viðurkenndri rannsóknarstofu á EES-svæðinu eða í Bandaríkjunum. Óheimilt er að flytja til landsins sæði úr hundi, sem tekið hefur verið innan 120 daga frá því hann var fyrst bólusettur gegn hundaæði. Sé um endurbólusetningu að ræða og hafi mótefni mælst að minnsta kosti 0,5 a.e./ml, er heimilt að flytja til landsins sæði úr hundi, sem tekið er 30 dögum eftir síðustu endurbólusetningu.

Lönd án hundaæðis (hundar sem hafa dvalið í löndum án hundaæðis 6 mánuðum fyrir sæðistöku þurfa ekki að vera bólusettir gegn hundaæði

Ástralía
Bretland
Færeyjar
Finnland
Hawaii
Írland
Japan
Nýja-Sjáland
Noregur (gildir ekki um Svalbarða)
Svíþjóð

Bólusetning gegn leptóspírósu (leptospirosis)
Á síðustu 180 dögum fyrir sæðistöku skal bólusetja sæðisgjafa gegn leptóspírósu. Hundar skulu fullbólusettir gegn leptóspírósu. Fylgja skal fyrirmælum framleiðanda viðkomandi bóluefnis varðandi grunn- og endurbólusetningar.. Óheimilt er að flytja til landsins sæði úr hundi, sem tekið hefur verið innan 30 daga frá því hann var síðast bólusettur gegn leptospírósu.

Bólusetning gegn hundafári (canine distemper)
Á síðustu 730 dögum fyrir sæðistöku skal bólusetja sæðisgjafa gegn hundafári. Hundar skulu fullbólusettir gegn hundafári. Fylgja skal fyrirmælum framleiðanda viðkomandi bóluefnis varðandi grunn- og endurbólusetningar. Óheimilt er að flytja til landsins sæði úr hundi, sem tekið hefur verið innan 30 daga frá því hann var síðast bólusettur gegn hundafári.

Aðrar bólusetningar – hundar:
Á síðustu 365 dögum fyrir sæðistöku skal bólusetja sæðisgjafa með deyddu bóluefni gegn eftirtöldum tveimur sjúkdómum:
(1) smitandi lifrarbólgu (hepatitis contagiosa canis),
(2) smáveirusótt (canine parvovirus).
Hundar skulu fullbólusettir gegn lifrarbólgu og smáveirusótt. Fylgja skal fyrirmælum framleiðanda viðkomandi bóluefnis varðandi grunn- og endurbólusetningar. Óheimilt er að flytja til landsins sæði úr hundi, sem tekið hefur verið innan 30 daga frá því hann var síðast bólusettur gegn smitandi lifrarbólgu og smáveirusótt.

­ Rannsóknir

Blóðrannsókn vegna brúsellósu (brucellosis)
Á síðustu 30 dögum fyrir sæðistöku skal taka blóðsýni til rannsókna á Brucella canis. Sé sýnið jákvætt er óheimilt að flytja sæði úr hundinum til landsins.

Skapgerðarmat sæðisgjafa

Yfirdýralæknir metur í hverju tilfelli fyrir sig hvort krefjast skuli sérstaks skapgerðarmats á sæðisgjafa sem sótt er um leyfi til að flytja inn sæði úr. Þá er tekið mið af því sem vitað er um eðli viðkomandi hundategundar. Innflytjendur fá nánari upplýsingar um framkvæmd skapgerðarmatsins.

Efst á síðu

3. Umsögn og samþykkt vottorða

Áður en hundasæðið er sent til Íslands skal innflytjandi senda yfirdýralækni, með faxi, eftirfarandi skjöl:

  • innflutningsleyfi
  • rétt útfyllt og undirritað heilbrigðis- og upprunavottorð
  • staðfesting rannsóknarstofu á niðurstöðum blóðrannsóknar á hundaæðismótefnum, ef við á
  • niðurstöður skapgerðarmats, ef við á

Sé vottorðunum ábótavant að einhverju leyti er það tilkynnt innflytjanda svo fljótt sem auðið er svo hægt sé að lagfæra það í tíma. Mikilvægt er að hafa rétt símanúmer innflytjanda eða umboðsmanns hans á vottorðinu. Yfirdýralæknir tilkynnir innflytjanda og héraðsdýralækni umsögn sína eins fljótt og auðið er. Ekki er heimilt að senda sæðið til Íslands fyrr en jákvæð umsögn yfirdýralæknis liggur fyrir.

Efst á síðu

4. Sending sæðis til Íslands – afhending til eiganda

Sæðið skal geymt í innsigluðum höggþéttum umbúðum (með fljótandi köfnunarefni) sem merkt er örmerkisnúmeri sæðisgjafa, nafni hans og heimilisfangi. Það skal flutt með hraðpósti ásamt frumriti allra tilskilinna vottorða, til héraðsdýralæknisins í Gullbringu- og Kjósarumdæmi. Heimilisfangið er:

Héraðsdýralæknir Gullbringu- og Kjósarumdæmis
Tilraunastöð HÍ í meinafræði
Keldum v/Vesturlandsveg
112 Reykjavík

Í innihaldslýsingu sendingarinnar skal skrifa: Hundasæði (dog semen), tollflokkur 0511-9909

Þegar héraðsdýralæknirinn eða fulltrúi hans hefur móttekið sæðið og yfirfarið gögnin verður haft samband við innflytjanda og honum síðan afhent sæðið.

Efst á síðu

5. Sæðing með innfluttu sæði - tilkynningarskylda

Einungis dýralæknum með starfsleyfi á Íslandi er heimilt að sæða tíkur með innfluttu sæði. Tíkur sem sæddar hafa verið með innfluttu sæði er óheimilt að para á sama gangmáli. Dýralæknir sem sæðir tík með innfluttu sæði skal tilkynna um það til yfirdýralæknis. Láti tíkin eða veikist eftir sæðingu eða á meðgöngu skal eigandi tilkynna það viðkomandi héraðsdýralækni. Fóstur og fylgjur eftir fósturlát skal varðveita og þeim komið til héraðsdýralæknis til rannsóknar.

Efst á síðu

6. Geymsla sæðis

Umbúðirnar sem sæðið er flutt inn í, eru einungis bráðabirgðaumbúðir (útflutningsaðili veitir upplýsingar um geymsluþol sæðis í umbúðunum) og sé ráðgert að geyma sæðið til seinni nota verður innflytjandi að koma því í geymslu.

Efst á síðu


7. Kostnaður við innflutning, öflun vottorða, sýnatökur og eftirlit

Innflytjandi ber allan kostnað af sóttvarnarráðstöfunum og öflun vottorða, þ.m.t. sýnatökum, eftirliti og rannsóknum sem yfirdýralæknir telur nauðsynlegar.


9. Mikilvæg heimilisföng, símanúmer og vefsíður

Landbúnaðarráðuneytið
Sölvhólsgötu 7
150 Reykjavík
Sími 545 9750
Fax 552 1160
www.landbunadarraduneyti.is

Embætti yfirdýralæknis
Austurvegi 64, 800 Selfoss
Sími 530 4800
Fax 530 4801
www.yfirdyralaeknir.is

Héraðsdýralæknirinn í Gullbringu- og Kjósarumdæmi
Tilraunastöð HÍ í meinafræði
Keldum v/Vesturlandsveg
112 Reykjavík
Sími 567 4700

Efst á síðu