INNFLUTNINGUR HUNDA OG KATTA TIL ÍSLANDS


LEIÐBEININGAR FYRIR INNFLYTJENDUR (Sækja á pdf)

Hér er að finna leiðbeiningar fyrir innflytjendur hunda og katta um hvað beri að gera þegar innflutningur er undirbúinn.

Innflutningur hunda og katta er óheimill nema að fengnu leyfi landbúnaðarráðherra og uppfylltum skilyrðum reglugerðar nr. 935/2004 um innflutning gæludýra og hundasæðis.

Mikilvæg atriði
   
1. Umsókn um innflutningsleyfi - gjald vegna innflutningseftirlits
2. Óheimill innflutningur
3. Einangrun í 4 vikur - panta pláss
4. Heilbrigðisvottorð, bólusetningar, blóðsýni o.fl. - yfirlitstafla
5. Skapgerðarmat
6. Umsögn og samþykkt vottorða
7. Flugferð til Íslands - innflutningsstaður - flutningsbúr
8. Dvölin í einangrunarstöðinni / heimsóknir / tryggingar
9. Kostnaður við innflutning, öflun vottorða, sýnatökur, eftirlit og einangrun
   
Heimilisföng, símanúmer og vefsíður
Umsóknareyðublöð, vottorð og fleira


Að gefnu tilefni er bent á eftirfarandi:

 • Undirbúningur dýra fyrir innflutning (umsókn um leyfi / bið eftir plássi í einangrun / bólusetningar og blóðpróf) getur tekið allt að 4 mánuði. Innflytjendur eru því hvattir til að kynna sér reglur varðandi innflutning með góðum fyrirvara.
 • Lágmarksaldur innfluttra dýra er 5 mánuðir - en það gildir eingöngu um hunda og ketti frá löndum þar sem hundaæði er ekki landlægt (Ástralía, Bretland, Færeyjar, Finnland, Írland, Japan, Nýja-Sjáland, Noregur (gildir ekki um Svalbarða) og Svíþjóð)
 • Dýr frá löndum þar sem hundaæði er landlægt, skulu vera bólusett gegn hundaæði. Dýrin skulu vera a.m.k. 12 vikna gömul þegar bólusetningin er framkvæmd og svo þurfa að líða 120 dagar þar til flytja má dýrin til landsins. Taka skal blóðsýni og mæla magn mótefnis í fyrsta lagi 30 dögum eftir bólusetningu og skal það vera hærra en 0,5 IE/ml. Dýr frá "hundaæðis-löndum" geta því ekki verið yngri en u.þ.b. 7 mánaða við innflutning.

Nánari upplýsingar um innflutningsferlið, bólusetningar og blóðpróf er að finna hér


1. Umsókn um innflutningsleyfi – gjald vegna innflutningseftirlits

Smellið hér til að finna umsóknareyðublöð sem nota skal til að sækja um leyfi til innflutnings. Mismunandi eyðublöð eru fyrir hvora dýrategund. Innflytjandi skuldbindur sig og staðfestir með undirskrift sinni á umsóknareyðublað að hlíta í hvívetna öllum þeim fyrirmælum sem landbúnaðarráðherra og yfirdýralæknir setja sem skilyrði til innflutnings og einangrunar. Ef ekki verða sérstakar tafir tekur afgreiðsla umsóknar u.þ.b. viku.

Þegar umsóknin hefur verið afgreidd, fær umsækjandi senda tilkynningu um veitingu innflutningsleyfis og innan fjögurra vikna frá dagsetningu þess bréfs skal greiða staðfestingargjald (gjald vegna innflutningseftirlits með gæludýrum) að upphæð kr. 19.684. Senda skal afrit af greiðslukvittun til landbúnaðarráðuneytisins (með símbréfi eða tölvupósti). Eftirfarandi er Innifalið í gjaldinu:

 1. Vottun yfirdýralæknis á heilbrigðis- og upprunavottorði.
 2. Eftirlit héraðsdýralæknis (heilbrigðisskoðun og skoðun innflutningspappíra) á innflutningsstað við komu dýrsins.
 3. Eftirlit héraðsdýralæknis (heilbrigðisskoðun og skoðun heilsufarsskýrslu) í einangrunarstöð áður en dýrið yfirgefur stöðina.

Þegar gjald vegna innflutningseftirlits hefur verið greitt fær umsækjandi innflutningsleyfið sent ásamt eyðublöðum fyrir heilbrigðis- og upprunavottorð sem dýralæknir í útflutningslandi dýrsins útfyllir og undirritar. Innflutningsleyfi gildir í eitt ár.

2. Óheimill innflutningur. Innflutningsleyfi verður ekki veitt fyrir eftirfarandi:
a) Hvolpafullar tíkur.
b) Kettlingafullar læður.
c) Tíkur með hvolpa á spena.
d) Læður með kettlinga á spena.
e) Dýr sem hafa undirgengist aðgerðir fyrir innflutning og þarfnast eftirlits eða eftirmeðferðar af nokkru tagi.
f) Hunda af eftirfarandi tegundum, svo og blendinga af þeim:
1. Pit Bull Terrier/Staffordshire Bull Terrier
2. Fila Brasileiro
3. Toso Inu
4. Dogo Argentino
5. Aðrar hundategundir eða blendinga, skv. ákvörðun landbúnaðarráðherra í hverju tilfelli, að fenginni umsögn yfirdýralæknis
g) Blendinga af úlfum og hundum.

Efst á síðu


3. Einangrun í 4 vikur - panta pláss

Allir hundar og kettir sem heimilað hefur verið að flytja til landsins skulu dvelja í einangrunarstöð í 4 vikur. Eftir að innflytjandi hefur fengið innflutningsleyfi skal hann sjálfur panta pláss fyrir dýrið í einangrunarstöð sem viðurkennd er af landbúnaðarráðuneytinu. (Einangrunarstöð gæludýra í Hrísey eða Einangrunarstöð Reykjanesbæjar í Höfnum). Athugið að bóka þarf pláss með góðum fyrirvara.

(Ath! Það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir kröfum varðandi bólusetningar o.fl. áður en pantað er pláss í einangrunarstöð þar sem þar sem tiltekinn tími þarf að líða frá því að bólusett er og þar til dýrið má koma til landsins.)

Efst á síðu


4. Heilbrigðisvottorð, bólusetningar, blóðsýni o.fl.

Mikilvægt er að huga snemma að þeim kröfum sem gerðar eru um bólusetningar, blóðsýni o.fl. þar sem tiltekinn tími þarf að líða frá því að bólusett er og þar til dýrið má koma til landsins. Einungis þau eyðublöð fyrir heilbrigðis- og upprunavottorð, útgefin af yfirdýralækni, sem innflytjandi fær afhend ásamt innflutningsleyfinu, eru samþykkt (ath! einnig má sækja þessi eyðublöð hér á vefnum). Dýralæknir sem hefur starfsleyfi í útflutningslandinu skal útfylla og undirrita vottorðið. Vottorðið gildir í 10 daga frá útgáfudegi.

Eftirfarandi skal staðfest í heilbrigðis- og upprunavottorðinu (sjá nánar í sjálfu vottorðinu):

1. Útflutningsland.

2. Hundategund / kattategund

3. Eigandi/umboðsmaður/innflytjandi: Nafn, kennitala, heimili og símanúmer, auk faxnúmers og netfangs ef við á.

4. Örmerking: Merkja skal dýrið með örmerki sem uppfyllir FECAVA- eða ISO staðla áður en það er heilbrigðisskoðað, bólusett, sýni tekin eða það meðhöndlað. Merkja má dýrið með öðru örmerki ef eigandi leggur til lesara (skanna).

5. Fæðingardagur: Dýrið skal vera að minnsta kosti fimm mánaða gamalt við komuna til landsins.

6. Nafn dýrs.

7. Smitsjúkdómar (fjórþætt; heilbrigðisskoðun, bólusetningar, rannsóknir og meðhöndlun - smellið hér til að sjá yfirlit)

­ Heilbrigðisskoðun: Við heilbrigðisskoðun á síðustu 10 dögum fyrir innflutning má dýrið ekki sýna nein einkenni smitsjúkdóms.

­ Bólusetningar

Bólusetning gegn hundaæði (rabies) – hundar og kettir:
Á síðustu 365 dögum fyrir innflutning skal bólusetja hunda og ketti sem koma frá landi með hundaæði, með deyddu bóluefni gegn hundaæði. Dýrin skulu vera a.m.k. 12 vikna við bólusetningu. Mæla skal magn mótefnis í blóði í fyrsta lagi 30 dögum eftir bólusetningu og skal það mælast hærra en eða jafnt og 0,5 a.e./ml. Sé það lægra er óheimilt að flytja dýrið til landsins. Mælingarnar skulu framkvæmdar á viðurkenndri rannsóknarstofu á EES-svæðinu eða í Bandaríkjunum. Óheimilt er að flytja hunda og ketti til landsins fyrr en 120 dagar eru liðnir frá því þeir voru bólusettir gegn hundaæði í fyrsta sinn. Sé um endurbólusetningu að ræða og hafi mótefni mælst hærra en eða jafnt og 0,5 a.e./ml er heimilt að flytja dýrið inn 30 dögum eftir síðustu bólusetningu.

Lönd án hundaæðis (dýr sem koma frá löndum án hundaæðis þurfa ekki að vera bólusett gegn hundaæði):

Ástralía
Bretland
Færeyjar
Finnland
Hawaii
Írland
Japan
Nýja-Sjáland
Noregur (gildir ekki um Svalbarða)
Svíþjóð

Bólusetning gegn leptóspírósu (leptospirosis) – hundar:
Á síðustu 180 dögum fyrir innflutning skal bólusetja hunda gegn leptóspírósu.
Hundar skulu fullbólusettir gegn leptóspírósu. Fylgja skal fyrirmælum framleiðanda viðkomandi bóluefnis varðandi grunn- og endurbólusetningar. Óheimilt er að flytja hunda til landsins fyrr en 30 dagar eru liðnir frá því þeir voru síðast bólusettir gegn leptospírósu.

Bólusetning gegn hundafári (canine distemper) – hundar:
Á síðustu 730 dögum fyrir innflutning skal bólusetja hunda gegn hundafári.
Hundar skulu fullbólusettir gegn hundafári. Fylgja skal fyrirmælum framleiðanda viðkomandi bóluefnis varðandi grunn- og endurbólusetningar. Óheimilt er að flytja hunda til landsins fyrr en 30 dagar eru liðnir frá því þeir voru síðast bólusettir gegn hundafári.

Aðrar bólusetningar – hundar:
Á síðustu 365 dögum fyrir innflutning skal bólusetja hunda gegn eftirtöldum tveimur sjúkdómum:
(1) smitandi lifrarbólgu (hepatitis contagiosa canis)
(2) smáveirusótt (parvovirus).
Hundar skulu fullbólusettir gegn lifrarbólgu og smáveirusótt. Fylgja skal fyrirmælum framleiðanda viðkomandi bóluefnis varðandi grunn- og endurbólusetningar.
Óheimilt er að flytja hunda til landsins fyrr en 30 dagar eru liðnir frá því þeir voru síðast bólusettir gegn smitandi lifrarbólgu og smáveirusótt.

Aðrar bólusetningar – kettir:
Á síðustu 365 dögum fyrir innflutning skal bólusetja ketti gegn eftirtöldum þremur sjúkdómum:
(1) kattafári (feline panleukopenia)
(2) kattaflensu (rhinotracheitis)
(3) kattakvefi (Feline calicivirus).
Kettir skulu fullbólusettir gegn kattafári/kattaflensu/kattakvefi. Fylgja skal fyrirmælum framleiðanda viðkomandi bóluefnis varðandi grunn- og endurbólusetningar.
Óheimilt er að flytja ketti til landsins, fyrr en 30 dagar eru liðnir frá því þeir voru síðast bólusettir gegn kattafári, kattaflensu og kattakvefi.

­ Rannsóknir

Blóðrannsókn vegna brúsellósu (brucellosis) – hundar:
Á síðustu 30 dögum fyrir innflutning skal taka blóðsýni til rannsókna á Brucella canis. Sé sýnið jákvætt er óheimilt að flytja dýrið inn.

Blóðrannsókn vegna kattalnæmis (Feline immunodeficiency virus) – kettir:
Á síðustu 30 dögum fyrir innflutning skal taka blóðsýni til rannsókna á kattaalnæmi. Sé sýnið jákvætt er óheimilt að flytja dýrið til landsins.

Blóðrannsókn vegna kattahvítblæðis (Feline leukemia virus) – kettir:
Á síðustu 30 dögum fyrir innflutning skal taka blóðsýni til rannsókna á kattahvítblæði. Sé sýnið jákvætt er óheimilt að flytja dýrið til landsins.

Rannsókn vegna salmonellu – hundar og kettir:
Á síðustu 30 dögum fyrir innflutning skal taka saursýni til rannsókna á Salmonella sýklum. Sé sýnið jákvætt er óheimilt að flytja dýrið til landsins, nema áhættan við innflutninginn sé ásættanleg að mati yfirdýralæknis.

ATH! Mælt er með að sýni vegna ofangreindra rannsókna séu tekin eins snemma og hægt er, þ.e. 20-30 dögum fyrir áætlaðan komudag svo að tryggt verði að niðurstöður liggi fyrir tímanlega.

­ Meðhöndlun

Meðhöndlun gegn bandormum – hundar og kettir:
Á síðustu 10 dögum fyrir innflutning skal meðhöndla hunda og ketti gegn bandormum (Echinococcus multilocularis, Echinococcus granulosus).

Meðhöndlun gegn útvortis sníkjudýrum – hundar og kettir:
Á síðustu 10 dögum fyrir innflutning skal meðhöndla hunda og ketti gegn sníkjudýrum.


5. Skapgerðarmat - hundar

Yfirdýralæknir metur í hverju tilfelli fyrir sig hvort krefjast skuli sérstaks skapgerðarmats á hundi sem sótt er um leyfi til að flytja inn. Þá er tekið mið af því sem vitað er um eðli viðkomandi hundategundar. Innflytjendur viðkomandi hunda fá nánari upplýsingar um framkvæmd skapgerðarmatsins.

Efst á síðu

6. Umsögn og samþykkt vottorða

Að minnsta kosti 5 sólarhringum fyrir áætlaðan komudag dýrsins til Íslands skal innflytjandi senda yfirdýralækni, með faxi, eftirfarandi skjöl: (frumrit þessara gagna skulu fylgja dýrinu til landsins auk reiknings þar sem kaupverð dýrsins kemur fram, hafi eigandi átt það skemur en 12 mánuði)

 • innflutningsleyfi
 • rétt útfyllt og undirritað heilbrigðis- og upprunavottorð (allar 4 síðurnar)
 • staðfesting rannsóknarstofu á niðurstöðum blóðrannsóknar á hundaæðismótefnum, ef við á
 • niðurstöður skapgerðarmats, ef við á

Sé vottorðunum ábótavant að einhverju leyti er það tilkynnt innflytjanda svo fljótt sem auðið er svo hægt sé að lagfæra það í tíma. Mikilvægt er að hafa rétt símanúmer innflytjanda eða umboðsmanns hans á vottorðinu. Yfirdýralæknir tilkynnir innflytjanda, héraðsdýralækni og einangrunarstöð, umsögn sína a.m.k. þremur virkum dögum fyrir áætlaðan komudag.

Efst á síðu


7. Flugferðin til Íslands - innflutningsstaður - flutningsbúr

Einungis er heimilt að flytja inn hunda og ketti til Íslands um Keflavíkurflugvöll. Innflytjandi pantar flugfar fyrir dýrið og útvegar búr til flutningsins sem skal uppfylla eftirfarandi skilyrði:

 • búrið skal vera sterkbyggt og úr efni sem er auðvelt að þrífa og sótthreinsa
 • ekki skal nota trébúr nema í undantekningartilfellum og skal þeim þá eytt í einangrunarstöðinni (eigandi verður þá að útvega nýtt búr til flutnings dýrsins úr stöðinni)
 • á búrinu skulu vera op til að tryggja góð loftskipti og að dýrið sjái út en það má ekki geta stungið loppum eða trýni út
 • búrið skal vera það stórt að dýrið geti staðið, legið og snúið sér við í því

Við komuna til landsins á innflutningsstað skoðar héraðsdýralæknir dýrið og sannreynir að það sýni ekki einkenni smitsjúkdóms, hafi innflutningsleyfi og jákvæða umsögn yfirdýralæknis og að frumrit allra tilskilinna vottorða fylgi.

Flytja verður dýrið frá útflutningslandi til Íslands án þess að það komist í snertingu við önnur dýr. Komi dýrið frá landi án hundaæðis er millilending/umflutningur í landi með hundaæði óheimill nema um sé að ræða alþjóðasvæði flugvalla.

Efst á síðu


8. Dvölin í einangrunarstöðinni / heimsóknir / tryggingar

Við komu í einangrunarstöð eru dýrin vigtuð og sýni vegna sníkjudýra tekin til rannsóknar. Dýrin eru skoðuð vikulega af dýralækni og oftar ef þörf krefur. Haldin er dvalarskýrsla fyrir hvert dýr, þar sem m.a. eru skráðar upplýsingar um þyngd, matarlyst, sýnatökur og niðurstöður úr þeim, gjöf ormalyfja og meðhöndlun sjúkdóma ef um slíkt er að ræða. Fyrir lok einangrunartímans gengur héraðsdýralæknir úr skugga um að öllum reglum varðandi innflutning dýrsins hafi verið fylgt.

Framkvæmdastjóri viðkomandi einangrunarstöðvar ræður hvort heimsóknir eigenda séu heimilar en heimsóknir væru í fyrsta lagi leyfðar í þriðju viku dvalarinnar þegar niðurstöður sýna liggja fyrir og hugsanlegri meðhöndlun er lokið. Reynslan hefur sýnt að dýr sem eru heimsótt af eigendum sínum geta misst matarlystina fyrst á eftir.

Athugið að dýrin eru ekki líf-/sjúkratryggð af einangrunarstöðvunum á meðan dvölinni stendur.

Efst á síðu

9. Kostnaður við innflutning, öflun vottorða, sýnatökur, eftirlit og einangrun

Innflytjandi ber allan kostnað af sóttvarnarráðstöfunum og öflun vottorða, þ.m.t. sýnatökum, eftirliti og rannsóknum sem yfirdýralæknir telur nauðsynlegar.

Kostnaður við innflutning og einangrun hunda og katta (pdf skjal)

Efst á síðu

10. Mikilvæg heimilisföng, símanúmer og vefsíður

Landbúnaðarráðuneytið
Sölvhólsgötu 7
150 Reykjavík
Sími 545 9750 – Fax 552 1160
postur@lan.stjr.is
www.landbunadarraduneyti.is

Embætti yfirdýralæknis
Austurvegi 64
800 Selfoss
Sími 530 4800– Fax 530 4801
www.yfirdyralaeknir.is

Einangrunarstöð Reykjanesbæjar
Sími 421 6949 / 698 0518
einangrun@einangrun.biz

Efst á síðu