ÚTFLUTNINGUR HUNDA OG KATTA

Nokkuð er um að hunda- og kattaeigendur flytji sér dýrin sín til útlanda vegna búferlaflutninga eða til að selja. Við slíkan útflutning er mikilvægt að kanna með góðum fyrirvara hvers konar heilbrigðiskröfur eru gerðar í viðkomandi landi. Upplýsingar er m.a. hægt að finna á vefsíðum dýralæknayfirvalda - sjá tenglasafn.


ESB / EES

Við útflutning til landa innan ESB/EES eru gerðar kröfur um eftirfarandi atriði: (þessar reglur tóku gildi 1. október 2004)

1. AUÐKENNI
Dýrin skulu vera örmerkt eða eyrnamerkt.

2. HUNDAÆÐI - BÓLUSETNING OG MÓTEFNAMÆLING
Dýrin skulu bólusett gegn hundaæði (rabies). Fyrir hunda/ketti sem fara til Bretlands, Írlands, Noregs eða Svíþjóðar, skal taka blóðprufu og mæla magn hundaæðismótefnis (sem skal vera jafnt og eða meira en 0,5 IU/ml). Blóðprufuna má taka í fyrsta lagi 120 dögum (og í síðasta lagi 365 dögum) eftir bólusetningu fyrir Noreg og Svíþjóð en fyrir Bretland skal taka prufuna eigi fyrr en 30 dögum eftir bólusetningu og svo þurfa að líða 6 mánuður áður en flytja má dýrið út.
Um öll önnur lönd gildir að 3 vikur (21 dagur) þurfa að líða frá bólusetningu gegn hundaæði þar til flytja má dýrið út.
(Breytt í janúar 2005)

Ath! Sum lönd leyfa innflutning á hvolpum/kettlingum yngri en þriggja (3) mánaða án bólusetningar gegn hundaæði. Eigendur eru hvattir til að leita upplýsinga hjá viðkomandi löndum varðandi þetta.

3. SNÍKJUDÝRAMEÐHÖNDLUN
Dýrin skulu meðhöndluð gegn bandormum (Echinococcus) innan 10 daga fyrir brottför. Sum lönd krefjast einnig meðhöndlunar gegn farmaurum/stórmaurum (ticks).

4. SÉRSTÖK VOTTORÐ (EYÐUBLÖÐ)
Nauðsynlegt er að notuð séu sérstök vottorð fyrir hvert innflutningsland, sem eru útgefin af ESB.

5. UNDIRSKRIFT OPINBERS DÝRALÆKNIS
Auk dýralæknisins sem meðhöndlar dýrið og fyllir út vottorðið skal opinber dýralæknir (t.d. héraðsdýralæknir viðkomandi umdæmis) einnig skrifa undir vottorðið.

6. GÆLUDÝRAPASSI
Ekki er þörf á svokölluðum gæludýrapassa þegar flytja á hund eða kött frá Íslandi til landa innan ESB/EES en hans er krafist ef til stendur að ferðast með dýrið á milli Evrópusambandslanda. Í flestum tilfellum eru slíkir passar útgefnir hjá dýralæknum í viðkomandi löndum og mikilvægt er að hafa meðferðis gögn um hundaæðisbólusetningu.

Eigendur dýra sem flytja skal til landa innan ESB/EES eru hvattir til að hafa samband við sinn dýralækni í tæka tíð til að skipuleggja bólusetningu og meðhöndlun.


Nýja-Sjáland

Hérna er tengill á vef landbúnaðarráðuneytis þeirra Nýsjálendinga og þar er að finna ítarlegar upplýsingar um innflutningsskilyrði hunda og katta frá Íslandi, svo og umsóknareyðublöð.


Bandaríkin

Yfirleitt er einingis gerð krafa um almennt dýralæknisvottorð þar sem fram koma upplýsingar um dýrið, auðkenni auk ormahreinsunar. Sum fylki gera þó kröfu um hundaæðisbólusetningu.


Japan

Japanir fara fram á að sótt sé um innflutningsleyfi (-númer) 40 dögum fyrir innflutning. Þar sem Ísland er hundaæðisfrítt þarf ekki að bólusetja hunda og ketti gegn hundaæði en gerð er krafa um heilbrigðisvottorð. Upplýsingar um innflutningskröfur til Japan.