ÚTFLUTNINGUR HROSSA

Lagastoð
Á hverju ári eru flutt út mörg hundruð hrossa til margra landa, þó flest fari þau til landa innan ESB. Lög um útflutning hrossa nr. 55/2002 heimila útflutning án sérstakra leyfa. Reglugerð nr. 449/2002 um útflutning hrossa ásamt reglugerð nr. 677/2002 um breytingu á 10. grein reglugerðar nr. 449/2002, setja nánari reglur um framkvæmd útflutnings hrossa.

Aldur og ástand útflutningshrossa
- Heimilt er að flytja út hross sem eru á aldrinum 4 mánaða til 15 vetra.
- Eldri hross má einungis flytja út með flugvélum.
- Óheimilt er að flytja út fylfullar hyssur sem gengnar eru með meira en 7 mánuði.

Skoðun í útflutningshöfn
Krafa er um að útflutningshross séu skoðuð af embættisdýralækni í útflutningshöfn, þar sem metið er að hrossið sé hæft til útflutnings, það rétt merkt og að það uppfylli kröfur innflutningslands. Öl hross sem flytja á úr landi skulu vera örmerkt eða frostmerkt.
Hrossum sem flytja á úr landi skal fylgja hestavegabréf, sem Bændasamtök Íslands gefa út, er staðfestir uppruna, ætterni og hver sé núverandi eigandi.

Hestavegabréf
Hestavegabréf er opinbert skjal sem staðfestir hvaða hross er um að ræða og er jafn mikilvægt og vegabréf fyrir mannfólkið til að geta ferðast milli landa. Einnig er það notað til að staðfesta að rétt hross mæti til keppni. Auk þess eru skráðar ýmsar heilsufarslegar upplýsingar í vegabréfið, eins og bólusetningar og lyfjanotkun.

Í vegabréfinu er lýsing á hestinum, sem skal vera það nákvæm að hægt sé að sýna fram á að vegabréfið eigi við umrætt hross. Til að þetta sé hægt hefur verið þróað alþjóðlegt kerfi á undanförnum áratugum þar sem sérstök einkenni eru athuguð og þau skráð og teiknuð inn í vegabréfið. Þetta er mikið nákvæmnisverk, sérstaklega þegar ekki eru nein augljós einkenni s.s. hjá einlitum brúnum hrossum sem við fyrstu sýn virðast eins.

Vegabréfið er gefið út einu sinni og fylgir hrossinu alla tíð. Hestavegabréf má einungis gefa út af dýralækni sem starfar í upprunalandi hestsins. Útflytjandi hér á landi skal sjá til þess að dýralæknir, annar en embættisdýralæknir í viðkomandi útflutningshöfn eða dýralæknar á hans vegum, færi í vegabréfið útlitsteikningu/auðkennateikningu, af hrossinu sem embættisdýralæknirinn síðan staðfestir við útflutningshöfn. Kostnað af störfum dýralæknis við gerð útlitsteikningar/auðkennateikningar skal útflytjandi greiða sjálfur. Ef útlit hrossins breytist af einhverjum ástæðum þarf að fá dýralækni sem hefur til þess þekkingu og viðurkenndur er til að útbúa nýtt vegabréf, vegabréfið er þá sent til þeirra yfirvalda í hverju landi sem gefa það út, hér á landi eru það Bændasamtökin, sem gefa út nýtt vegabréf og hinu gamla er eytt.

Útflytjendur greiða Bændasamtökunum gjald vegna kostnaðar við útgáfu hestavegabréfa samkvæmt gjaldskrá sem landbúnaðarráðherra staðfestir að fengnum tillögum Bændasamtaka Íslands.