EFTIRLIT MEÐ AÐSKOTAEFNUM
Í SLÁTURAFURÐUM, MJÓLK OG ELDISFISKI

Embætti yfirdýralæknis hefur haft skipulegt, reglubundið eftirlit með aðskotaefnum og lyfjaleifum í sláturafurðum hér á landi síðan 1989. Fyrstu mælingar á sláturafurðum á vegum yfirdýralæknis voru gerðar 1974, en þá voru mæld klórkolefnissambönd í mör fullorðins fjár. Þetta var gert til að kanna hvort leifar af baðlyfi fyndust í afurðunum eftir þrifabaðanir þar sem notað var Gammatox baðlyf (virkt efni: Lindan). Í byrjun níunda áratugarins var magn blýs og kadmíums mælt í lifur og kjöti lamba. Sýnatökuáætlanir fyrir aðskotaefnamælingar í sláturafurðum eru nú gerðar árlega samkvæmt reglum Evrópusambandsins (tilskipun 96/23) og eru þær samþykktar af matvælaeftirlitsdeild bandaríska landbúnaðarráðuneytisins og dýralæknanefnd Evrópusambandins. Slíkt samþykki er nauðsynlegt til þess að sláturhús hér á landi fái útflutningsleyfi á Bandaríkja- og Evrópusambandsmarkað. Kjötskoðunarlæknar taka sýni og mælingarnar eru gerðar á fjórum mismunandi rannsóknastofum innlendum sem erlendum. Sýklalyfjamælingar eru gerðar á Tilraunastöð Háskóla Íslands á Keldum, ólífræn snefilefni eru mæld hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins (RF), sum sníklalyfin á Dýralæknaháskólanum í Osló en allar aðrar mælingar eru gerðar á Rannsóknastofnun matvæla og dýrasjúkdóma í Helsinki í Finnlandi (EELA).

Leitað er að efnum og efnasamböndum í eftirfarandi meginflokkum

- hormónar og vaxtaraukandi efni
- sníklalyf
- sýklalyf
- klórkolefnissambönd
- lífræn fosfórefni
- ólífræn snefilefni

Á árinu 2002 voru alls gerðar mælingar á 779 sýnum vegna sláturafurða, 326 mjólkursýnum og 65 sýnum af eldisfiski. Sýklalyf mældist í einu sýni úr sauðfé í meira magni en leyfilegt er. Sýni var sent til staðfestingar og magngreiningar erlendis og reyndist vera meira en 1600 µg/kg dihydrostreptomycin í sýninu en leyfilegt hámark er 1000 ug/kg. Öll önnur sýni voru ýmist undir greiningamörkum eða langt undir leyfilegum mörkum.

Aðskotaefnamælingar 2000
Aðskotaefnamælingar 2001
Aðskotaefnamælingar 2002