EFTIRLIT MEÐ MJÓLKURFRAMLEIÐSLU

Yfirdýralæknir hefur samkvæmt lögum nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr yfirumsjón með heilbrigðiseftirliti við framleiðslu mjólkur. Héraðsdýralæknar hafa árlegt eftirlit með heilbrigði, hirðingu, aðbúnaði og aðstöðu nautgripa á búum þar sem framleidd er mjólk til sölu.

Embætti yfirdýralæknis hefur eftirlit með mjólkurframleiðslu hjá framleiðanda og veitir framleiðsluleyfi, sbr. reglugerð nr. 438/2002 um aðbúnað nautgripa og eftirlit með framleiðslu mjólkur og annarra afurða þeirra, með síðari breytingum. Embætti yfirdýralæknis hefur einnig eftirlit með töku sýna vegna eftirlits með mjólkurgæðum hjá framleiðanda.

Heilbrigðisnefndir, undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, hafa eftirlit með flutningi mjólkur eftir að henni hefur verið dælt á flutningageyma hjá framleiðanda og framleiðslu í mjólkurstöð, samanber ákvæði þessarar reglugerðar. Framleiðsla og dreifing á mjólk og mjólkurvörum skal einnig uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 522/1994 um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla, með síðari breytingum, og ákvæði annarra reglna sem ná til þessara matvæla.

Hollustuvernd ríkisins og embætti yfirdýralæknis skulu hafa aðgang að mjólkurstöð, niðurstöðum eftirlits á hverjum tíma og öðrum þeim gögnum er varða heilnæmi mjólkur og mjólkurvara.

Afla skal starfsleyfis heilbrigðisnefndar áður en mjólkurstöð og tilheyrandi búnaður er tekinn í notkun. Hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd skal hafa samráð við Hollustuvernd ríkisins og embætti yfirdýralæknis um veitingu starfsleyfa fyrir mjólkurstöðvar.