HEILBRIGÐISEFTIRLIT Í SLÁTURHÚSUM

 

Árleg skoðun á byggingum og búnaði
Héraðsdýralæknar skoða árlega byggingar og búnað sláturhúsa, kjötvinnslustöðva, kjötfrystihúsa og kjötpökkunarstöðva, kanna vatnsgæði, meðferð á úrgangi og annað sem máli skiptir og skrifa skýrslu um skoðunina. Í framhaldi af henni gera þeir sláturleyfishafa skriflega grein fyrir því hvaða úrbætur þarf að gera í framhaldi af skoðuninni og setja honum frest til úrbóta.

Efst á síðu

Úttekt á innra eftirliti sláturhúsa
Reglugerð nr. 40/1999 um innra eftirlit í sláturhúsum og kjötpökkunarstöðvum er byggð á fyrirmælum yfirdýralæknis um innra eftirlit í sláturhúsum en þau höfðu verið í gildi frá því 1993 og byggja einkum á reglum ESB og Bandaríkjanna um innra eftirlit í sláturhúsum. Héraðsdýralæknar rýna innra eftirlitskerfið og fylgjast með að það sé virkt.

Efst á síðu

Eftirlit með flutningi sláturdýra
Fækkun sláturhúsa hefur leitt af sér lengri flutninga á sláturdýrum sem veldur meira álagi á dýrin. Í dreifibréfi embættis yfirdýralæknis til héraðsdýralækna var þeim falið að fylgjast vel með því að sláturdýrum væri ekki misboðið með löngum flutningum.

Önnur afleiðing af fækkun sláturhúsa, er flutningur sláturdýra milli varnarhólfa (varnarholf_01), en því fylgir aukin hætta á að smitsjúkdómar berist milli varnarsvæða. Þeirri meginreglu er fylgt að flytja ekki fullorðið sauðfé af svæði með fleiri sjúkdóma inn á svæði með færri sjúkdóma, sé þess nokkur kostur. Flutningar sláturdýra milli varnarhólfa hefur einnig í för með sér aukna þörf á góðum þrifum og sótthreinsun á flutningatækjum. Embætti yfirdýralæknis hefur undanfarin ár sent út leiðbeiningar vegna flutninga á sláturdýrum milli varnarhólfa. Þær voru endurskoðaðar og endurbættar árið 2000.

Efst á síðu

Heilbrigðisskoðun lifandi dýra
Kjötskoðunarlæknar heilbrigðisskoða sláturdýr og sláturafurðir samkvæmt ákvæðum í reglugerð nr. 168/1970 um heilbrigðisskoðun sláturafurða, með áorðnum breytingum. Áður en búfé er slátrað skal kjötskoðunarlæknir skoða sláturdýr lifandi til að gera sér sem gleggsta grein fyrir heilsufari þeirra og hvort um sjúkdóma eða eitranir geti verið að ræða. Í lögum nr. 96/1997 um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, mat og meðferð sláturdýra, er heimild til að skoða sláturdýr heima á býli hjá bóndanum. Það er gert í nokkrum tilvikum. Þannig eru tekin sýni af alifuglum á eldistímanum og þau rannsökuð með tilliti til Salmonella og Campylobacter og einnig af öðrum dýrum ef ástæða þykir til. Við skoðun á lifandi dýrum er einnig kannað hvort þau eru hrein eða óhrein. Kjötskoðunarlæknir skal einnig hafa gát á því að ómannúðleg meðferð eða misþyrming dýra eigi sér ekki stað í sláturhúsum, eða við flutninga á þeim.

Efst á síðu

Heilbrigðisskoðun sláturafurða
Bæði skrokkar og líffæri eru skoðuð skipulega og litið er eftir breytingum af völdum sjúkdóma eða áverka. Afurðirnar eru dæmdar í 3 flokka með tilliti til heilbrigðis. Í fyrsta flokk fara afurðir sem eru skilyrðislaust hæfar til manneldis. Í annan flokk fara afurðir sem hæfar eru til manneldis vel steiktar eða vel soðnar. Í þriðja flokk fara afurðir sem eru óhæfar til manneldis og dæmdar sjúkar.

Afurðir í fyrsta flokki eru stimplaðar með stimplinum ,,ICELAND” og löggildingarnúmeri sláturhússins. Kjöt í öðrum flokki fær stimpil sem er jafnarma þríhyrningur með löggildingarnúmeri sláturhúss innan í og afurðir í þriðja flokki eru stimplaðar með ferhyrndum stimpli með orðinu "SJÚKT" innan í. Slíkar afurðir mega ekki fara á markað en skulu fluttar rakleiðis úr sláturhúsi til eyðingar.


Kjötskoðunarlæknar annast hreinlætiseftirlit í sláturhúsum annars vegar með sjónmati og hins vegar með gerlafræðilegum aðferðum. Í sauðfjárslátrun skal sjónmeta hreinlæti og skrá.

Efst á síðu

Leyfisveitingar fyrir sláturhús

Hver sá sem vill byggja sláturhús til að slátra sláturdýrum í þeim tilgangi að selja afurðirnar á opinberum markaði, skal sækja um leyfi til landbúnaðarráðuneytisins og senda teikningar og aðrar nauðsynlegar upplýsingar með. Landbúnaðarráðuneyti leitar umsagnar yfirdýralæknis varðandi umsóknina. Að fengnu samþykki yfirdýralæknis löggildir landbúnaðarráðuneytið sláturhúsið.

Embætti yfirdýralæknis veitir rekstraraðilum sláturhúsa sláturleyfi. Skilyrði fyrir sláturleyfisveitingu eru m.a. að sláturleyfishafi eigi löggilt sláturhús eða hafi samning um notkun á löggiltu sláturhúsi og að hann starfræki innra eftirlit samkvæmt reglugerð nr. 40/1999, um innra eftirlit í sláturhúsum og kjötpökkunarstöðvum.

Efst á síðu

Útflutningsleyfi
Öflun útflutningsleyfis fyrir sláturhús og kjötvinnslustöðvar er langt ferli sem getur tekið býsna langan tíma. Fyrst gera heilbrigðisyfirvöld úttekt á stöðu dýrasjúkdóma á Íslandi, löggjöf um dýralækna, dýrasjúkdóma, eftirliti með eldi og heilbrigði dýra á Íslandi, lyfjamálum, eftirliti með aðskotaefnum og lyfjaleifum og öðru sem skiptir máli varðandi öryggi matvæla. Telji þau að ástandið sé viðunandi er landið sem slíkt viðurkennt og innflutningur þaðan heimill. Síðan fela þau íslenskum dýralæknayfirvöldum að meta hvaða sláturhús uppfylli kröfur innflutningslandsins. Viðurkenning á sláturhúsum fyrir Evrópusambands- og Japansmarkað fer fram á svipaðan hátt. Fimm sláturhús hafa útflutningsleyfi á Evrópusambandsmarkað og sömu fimm hús hafa útflutningsleyfi á Bandaríkjamarkað (sjá nánar í töflu yfir sláturhús

Efst á síðu