ALMENN ATRIÐI UM VIÐBRÖGÐ VIÐ ALVARLEGUM SMITSJÚKDÓMUM Í DÝRUM

Þessi texti á pdf-skjali

Efnisyfirlit

1 Löggjöf
  1.1 Tilkynning um grun um alvarlegan smitandi dýrasjúkdóm
  1.2 Slátrun smitaðra dýra og dýra sem geta verið smituð, förgun hræja, sótthreinsun og aðrar aðgerðir á smituðum búum, m.a. bólusetnin
  1.3 Bann við flutningi dýra og aðrar takmarkanir
  1.4 Aðgangur að stöðum þar sem dýr eru haldin
  1.5 Starfræksla á stöðum til förgunar á dýrahræju
2. Fjárhagsleg ákvæði
  2.1 Kostnaður vegna starfsfólks umfram venjulegan rekstur
  2.2 Kostnaður vegna fjölnota og einnota búnaðar, slátrunar dýra og förgunar hræja og annars smitnæms úrgangs, sem og sótthreinsunar
  2.3 Kostnaður vegna bóta til dýraeigenda
  2.4 Kostnaður vegna bólusetningar í neyðartilvikum
3. Boðleiðir og fyrstu viðbrögð
  3.1 Almenningur
  3.2 Lögreglan
  3.3 Rannsóknarstofur
  3.4 Sjálfstætt starfandi dýralæknar
  3.5 Sérgreinadýralæknar
  3.6 Eftirlitsdýralæknar
  3.7 Héraðsdýralæknar
  3.8 Yfirdýralæknir
4. Stjórnstöðvar
  4.1 Aðalstjórnstöð
  4.2 Stjórnstöðvar í héraði
5. Sérfræðinganefnd
6. Starfsfólk
7. Tækjabúnaður
8. Leiðbeiningar um viðbrögð við smitandi sjúkdómi í dýrum
9. Rannsóknarstofur
10. Áætlun um neyðarbólusetningu
11. Þjálfun
12. Miðlun upplýsinga

 


1. Löggjöf

Ákvæði um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim er að finna í lögum nr. 25/1993.
“Tilgangur laganna er:
a. að stuðla að góðu heilsufari dýra í landinu og koma í veg fyrir að nýir smitsjúkdómar berist til landsins,
b. að fylgjast með og hindra útbreiðslu dýrasjúkdóma og vinna að útrýmingu þeirra,
c. að tryggja að búfjárafurðir, framleiddar í landinu, verði sem heilnæmastar”.
(1. gr. laga nr. 25/1993).

Nánari ákvæði um viðbrögð við smitsjúkdómum er að finna í reglugerð nr. 665/2001
“Tilgangur þessarar reglugerðar er að bregðast við, hindra útbreiðslu og útrýma smitsjúkdómum er kunna að berast til landsins”. (2. gr. reglugerðar nr. 665/2001).

1.1 Tilkynning um grun um alvarlegan smitandi dýrasjúkdóm

“Hverjum þeim, sem hefur ástæðu til að ætla að dýr sé haldið smitsjúkdómi sem lög þessi ná yfir, ber án tafar að tilkynna það hverjum þeim dýralækni sem til næst eða lögreglu. Skylt er lögreglu að hafa strax samband við dýralækni. Telji dýralæknir ástæðu til skal hann tafarlaust gera ráðstafanir til að fá sjúkdómsgreiningu sína staðfesta og hindra útbreiðslu sjúkdómsins.
Leiði rannsókn í ljós eða dýralæknir fær grun um að um sé að ræða smitsjúkdóm, sem tilgreindur er í viðaukum 1A og 1B með lögum þessum eða smitsjúkdóm áður óþekktan hér á landi, skal dýralæknir án tafar tilkynna það yfirdýralækni. Jafnframt ber honum að grípa til varúðarráðstafana gegn útbreiðslu eða til útrýmingar sjúkdóminum, einnig að banna afhendingu dýrsins eða afurða þess og sjá um að einangra dýrið og önnur dýr sem kunna að bera smit, svo og nánasta umhverfi þeirra. Enn fremur skal hann sjá um að hlutir og vörur, sem komist hafa í snertingu við dýrið, verði sótthreinsuð eða þeim eytt og að aflífa dýrið eða gera aðrar þær ráðstafanir sem nauðsynlegar teljast. Eigendum dýra er skylt að veita alla nauðsynlega aðstoð vegna varúðarráðstafana sem framkvæmdar eru á grundvelli þessarar málsgreinar. …” (5. gr. laga nr. 25/1993).

1.2 Slátrun smitaðra dýra og dýra sem geta verið smituð, förgun hræja, sótthreinsun og aðrar aðgerðir á smituðum búum, m.a. bólusetning

“Landbúnaðarráðherra getur samkvæmt lögum þessum og að fengnum tillögum yfirdýralæknis fyrirskipað hverjar þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að útrýma eða hindra útbreiðslu þeirra dýrasjúkdóma sem taldir eru upp í viðaukum 1A, 1B og 2 og til að afstýra hættu og tjóni af völdum útbreiðslu þessara sjúkdóma. Ráðstafanir þessar ná yfir:
1. Dýr:
a. rannsóknir, þar með talda sýnatöku til sjúkdómsgreiningar,
b. sjúkdómsmeðferð,
c. ónæmisaðgerðir,
d. merkingar og einangrun,
e. eftirlit,
f. förgun og eyðingu,
g. bann við innflutningi eða útflutningi.
2. Dýraafurðir, fóður, húsdýraáburð og annað sem mengað er og kann að bera smit:
a. rannsóknir á mögulegu smitefni,
b. gerilsneyðingu, sótthreinsun og dauðhreinsun,
c. eyðingu,
d. bann við innflutningi eða útflutningi.
3. Byggingar, starfssvæði, vélar, verkfæri og farartæki:
a. hreinsun og sótthreinsun,
b. eftirlit og einangrun.
4. Eigendur og umráðaaðila dýra, starfsfólk þeirra, fatnað og tæki sem kunna að bera smitefni:
a. rannsóknir, þar með talda sýnatöku til sjúkdómsgreiningar,
b. hreinsun, sótthreinsun og eyðingu fatnaðar”. (8. gr. laga nr. 25/1993).

1.3 Bann við flutningi dýra og aðrar takmarkanir.

“Heimilt er landbúnaðarráðherra að takmarka eða banna dýrahald á afmörkuðum svæðum þar sem ætla má að heilbrigði dýra sé sérstök hætta búin að mati yfirdýralæknis”. (9. gr. laga nr. 25/1993).

“Yfirdýralækni er heimilt að takmarka eða banna flutning dýra, vöru eða tækja milli eða innan sóttvarnarsvæða telji hann að það valdi eða sé líklegt til að valda útbreiðslu sjúkdóma meðal dýra”. (11. gr. laga nr. 25/1993).

1.4 Aðgangur að stöðum þar sem dýr eru haldin

“Yfirdýralækni, héraðsdýralæknum og fulltrúum þeirra skal hvenær sem er vera heimill aðgangur að húsnæði, búum og fyrirtækjum þar sem dýr, eða afurðir þeirra, eru geymd og skulu þeim veittar allar nauðsynlegar upplýsingar vegna eftirlits og rannsókna sem óskað er eftir á grundvelli laga þessara”. (22. gr. laga nr. 25/1993).

1.5 Starfræksla á stöðum til förgunar á dýrahræjum

“Sveitarstjórn skal sjá um að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem fellur til í sveitarfélaginu”. (6. gr. reglugerðar nr. 737/2003).

“Umhverfisstofnun veitir starfsleyfi fyrir móttökustöðvar … og hefur eftirlit með því að starfsleyfishafi fari að ákvæðum þess”. (4. gr. reglugerðar nr. 737/2003).


2. Fjárhagsleg ákvæði

2.1 Kostnaður vegna starfsfólks umfram venjulegan rekstur

“Þóknun og ferðakostnaður vegna starfa dýralæknis eða annarra sem takast á hendur verkefni sem leiðir af framkvæmd þessara laga samkvæmt fyrirmælum yfirdýralæknis skal greiddur úr ríkissjóði”. (16. gr. laga nr. 25/1993).

2.2 Kostnaður vegna fjölnota og einnota búnaðar, slátrunar dýra og förgunar hræja og annars smitnæms úrgangs, sem og sótthreinsunar

“Ríkissjóður greiðir kostnað vegna einangrunar búfjár sem ákveðin er til varnar sjúkdómum sem taldir eru upp í viðauka 1A með lögum þessum, svo og efniskostnað vegna nauðsynlegrar hreinsunar og sótthreinsunar, einnig kostnað vegna aflífunar, eyðingar hræja og notkunar tækja sem þarf til fyrrgreindra verka. Ríkissjóður greiðir kostnað vegna einangrunar og gæslu svæða, enda sé einangrunin fyrirskipuð af landbúnaðarráðherra. Eigendum búfjár er skylt að leggja fram endurgjaldslaust alla ófaglega vinnu og aðstoð við hreinsun, sótthreinsun og aflífun dýra”. (17. gr. laga nr. 25/1993).

2.3 Kostnaður vegna bóta til dýraeigenda

“Eigendur búfjár, sem fargað er samkvæmt fyrirmælum landbúnaðarráðherra að tillögum yfirdýralæknis, eiga rétt á bótum úr ríkissjóði.
Bætur ríkissjóðs svara til verðgildis afurða og rekstrartaps sem sannanlega leiðir af eyðingu dýranna. Heimilt er að víkja frá ákvæðum þessarar málsgreinar um bætur þegar fyrirskipaður er niðurskurður á kynbótagripum.
Sé unnt að nýta afurðir dýra að hluta eða í heild skal verðmæti þeirra afurða koma til frádráttar heildarbótagreiðslum. Ekki koma bætur fyrir dýr sem eru óveruleg að verðmæti, nema því aðeins að til þess liggi gildar ástæður.
Bótaskylda ríkissjóðs samkvæmt lögum þessum nær eingöngu til búfjár”. (20. gr. laga nr. 25/1993).

2.4 Kostnaður vegna bólusetningar í neyðartilvikum

“Bannað er að bólusetja við smitsjúkdómum í viðauka 1 A og skal þeim útrýmt með niðurskurði”. (4. gr. reglugerðar nr. 665/2001).


3. Boðleiðir og fyrstu viðbrögð

3.1 Almenningur

“Hverjum þeim sem hefur ástæðu til að ætla að dýr sé haldið smitsjúkdómi ber án tafar að tilkynna það dýralækni eða lögreglu”. (5. gr. reglugerðar nr. 665/2001).

3.2 Lögreglan

Fái lögreglan tilkynningu um grun um smitsjúkdóm skal hún án tafar tilkynna næsta héraðsdýralækni eða yfirdýralækni um gruninn, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 665/2001.

3.3 Rannsóknarstofur

Vakni grunur hjá starfsmanni rannsóknarstofu, við krufningu á hræjum eða rannsókn á sýnum, um að dýrin sem hræin eða sýnin tilheyra, séu eða hafi verið haldin sjúkdómi sem er tilkynningarskyldur, skal hann fylgja eftirfarandi reglum:
• Tilkynna héraðsdýralækni og viðkomandi sérgreinadýralækni munnlega um gruninn, án tafar. Síðan fylla út og afhenda eða senda þeim viðeigandi eyðublöð.
• Fara að fyrirmælum héraðsdýralæknis um aðgerðir og nánari rannsóknir.
• Gera þær varúðarráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að fyrirbyggja smithættu frá hræjunum eða sýnunum.

3.4 Sjálfstætt starfandi dýralæknar

Vakni grunur hjá sjálfstætt starfandi dýralækni, í samtali við umsjónarmann dýra eða við skoðun á dýrum, um að þau séu haldin sjúkdómi sem er tilkynningarskyldur, skal hann fylgja eftirfarandi reglum:
• Tilkynna umsjónarmanni dýranna munnlega um gruninn og veita honum fyrirmæli um fyrstu varúðarráðstafanir. Síðan fylla út og afhenda eða senda honum viðeigandi eyðublað.
• Tilkynna héraðsdýralækni munnlega um gruninn án tafar. Síðan fylla út og afhenda eða senda honum viðeigandi eyðublað.
o Ekki fara á staðinn nema að fengnu leyfi héraðsdýralæknis.
o Ekki yfirgefa staðinn nema að fengnu leyfi héraðsdýralæknis.
• Fara að fyrirmælum héraðsdýralæknis um aðgerðir, sýnatökur eða rannsóknir.
• Sé um að ræða grun um mjög smitandi sjúkdóm, skal dýralæknirinn, eftir því sem við á:
o Fyrirskipa einangrun allra dýra á staðnum.
o Banna flutning dýra til og frá staðnum.
o Banna brottflutning dýraafurða, dýrahræja, úrgangs, fóðurs og alls annars sem smitið getur borist með.
o Setja skilyrði um aðgang fólks að og brottför þess af staðnum, í samráði við héraðsdýralækni.
o Tryggja sótthreinsun eigin bifreiðar, tækja, áhalda og fatnaðar þegar hann yfirgefur staðinn.

3.5 Sérgreinadýralæknar

Vakni grunur hjá sérgreinadýralækni, í samtali við umsjónarmann dýra eða við skoðun á dýrum, um að þau séu haldin sjúkdómi sem er tilkynningarskyldur, skal hann fylgja eftirfarandi reglum:
• Tilkynna umsjónarmanni dýranna munnlega um gruninn og veita honum fyrirmæli um fyrstu varúðarráðstafanir. Síðan fylla út og afhenda eða senda honum viðeigandi eyðublað
• Tilkynna héraðsdýralækni munnlega um gruninn án tafar. Síðan fylla út og afhenda eða senda honum viðeigandi eyðublað.
o Ekki fara á staðinn nema að fengnu leyfi héraðsdýralæknis.
o Ekki yfirgefa staðinn nema að fengnu leyfi héraðsdýralæknis.
• Fara að fyrirmælum héraðsdýralæknis um aðgerðir, sýnatökur eða rannsóknir.
• Sé um að ræða grun um mjög smitandi sjúkdóm, skal dýralæknirinn, eftir því sem við á:
o Fyrirskipa einangrun allra dýra á staðnum.
o Banna flutning dýra til og frá staðnum.
o Banna brottflutning dýraafurða, dýrahræja, úrgangs, fóðurs og alls annars sem smitið getur borist með.
o Setja skilyrði um aðgang fólks að og brottför þess af staðnum, í samráði við héraðsdýralækni.
o Tryggja sótthreinsun eigin bifreiðar, tækja, áhalda og fatnaðar þegar hann yfirgefur staðinn.

3.6 Eftirlitsdýralæknar

Vakni grunur hjá eftirlitsdýralækni, í samtali við umsjónarmann dýra eða við skoðun á dýrum, um að þau séu haldin sjúkdómi sem er tilkynningarskyldur, skal hann fylgja eftirfarandi reglum:
• Tilkynna umsjónarmanni dýranna eða forstöðumanni sláturhúss, eftir því sem við á, munnlega um gruninn og veita fyrirmæli um fyrstu varúðarráðstafanir. Síðan fylla út og afhenda eða senda þeim viðeigandi eyðublöð.
• Tilkynna héraðsdýralækni munnlega um gruninn án tafar. Síðan fylla út og afhenda eða senda honum viðeigandi eyðublað.
o Ekki fara á staðinn nema að fengnu leyfi héraðsdýralæknis.
o Ekki yfirgefa staðinn nema að fengnu leyfi héraðsdýralæknis.
• Fara að fyrirmælum héraðsdýralæknis um aðgerðir, sýnatökur eða rannsóknir.
• Sé um að ræða grun um mjög smitandi sjúkdóm, skal dýralæknirinn, eftir því sem við á:
o Fyrirskipa einangrun allra dýra á staðnum.
o Banna flutning dýra til og frá staðnum.
o Banna brottflutning dýraafurða, dýrahræja, úrgangs, fóðurs og alls annars sem smitið getur borist með.
o Setja skilyrði um aðgang fólks að og brottför þess af staðnum, í samráði við héraðsdýralækni.
o Tryggja sótthreinsun eigin bifreiðar, tækja, áhalda og fatnaðar þegar hann yfirgefur staðinn.

3.7 Héraðsdýralæknar

Vakni grunur hjá héraðsdýralækni við skoðun á dýri eða í samtali við umsjónarmann dýra, sjálfstætt starfandi dýralækni, eftirlitsdýralækni, starfsmann rannsóknarstofu eða aðra, um að dýr séu haldin sjúkdómi sem er tilkynningarskyldur, skal hann fylgja eftirfarandi reglum:
• Tilkynna umsjónarmanni dýranna munnlega um gruninn og veita honum fyrirmæli um fyrstu varúðarráðstafanir, hafi það ekki þegar verið gert. Síðan fylla út og afhenda eða senda honum viðeigandi eyðublað.
• Tilkynna yfirdýralækni munnlega um gruninn án tafar. Síðan fylla út og afhenda eða senda honum viðeigandi eyðublað.
• Tilkynna öllum dýralæknum í héraðinu um gruninn, með viðeigandi eyðublaði.
• Tilkynna, með viðeigandi eyðublaði, þeim aðilum í héraðinu um gruninn, sem hann telur þörf á, s.s.
o Mjólkurbúi
o Búnaðarsamtökum
o Flutningsaðilum
o Heilbrigðisfulltrúum
o Heilsugæslulæknum
• Hafa samband við rannsóknarstofu og gera ráðstafanir til að fá sjúkdómsgreiningu staðfesta.
• Gefa fyrirmæli um sýnatökur og sendingu sýna. Sýnum skal fylgja stöðluð rannsóknarbeiðni.
• Hafa umsjón með framkvæmd þeirra aðgerða og rannsókna sem yfirdýralæknir mælir fyrir um.
• Sé um að ræða grun um mjög smitandi sjúkdóm, skal héraðsdýralæknir, eftir því sem við á:
o Fyrirskipa einangrun allra dýra á staðnum.
o Banna flutning dýra til og frá staðnum.
o Banna brottflutning dýraafurða, dýrahræja, úrgangs, fóðurs og alls annars sem smitið getur borist með.
o Setja skilyrði um aðgang fólks að og brottför þess af staðnum.
o Fyrirskipa uppsetningu viðvörunarskilta
o Hefja söfnun faraldsfræðilegra upplýsinga, m.a. skráningu á því fólki sem er á staðnum þegar grunur vaknar, um allar ferðir fólks til og frá staðnum síðustu 14 daga, sem og flutning dýra, afurða þeirra, úrgangs og annars sem smitið getur borist með.
o Gefa fyrirmæli um fyrstu varúðarráðstafanir á þeim stöðum sem hafa haft samskipti við þann stað sem grunurinn kom upp á, síðustu 14 daga.
o Tryggja sótthreinsun eigin bifreiðar, tækja, áhalda og fatnaðar þegar hann yfirgefur staðinn.

3.8 Yfirdýralæknir

Berist yfirdýralækni tilkynning um grun um tilkynningarskyldan sjúkdóm skal hann fylgja eftirfarandi reglum:
• Tilkynna ráðherra munnlega um gruninn án tafar. Síðan fylla út og afhenda eða senda honum viðeigandi eyðublað.
• Tilkynna, með viðeigandi eyðublaði, þeim aðilum í landinu um gruninn, sem hann telur þörf á, s.s.:
o Aðfangaeftirliti
o Bændasamtökum Íslands
o Dýralæknum
o Fjölmiðlum
o Fóðurstöðvum
o Landssambandi sláturleyfishafa
o Landlæknisembætti
o Lögreglu
o Rannsóknarstofum / prófunarstofum
o Umhverfisstofnun
• Kalla saman smitsjúkdómanefnd eða fisksjúkdómanefnd, eftir því sem við á, og setja upp stjórnstöð, sbr. reglugerð um viðbrögð við smitsjúkdómum.
• Mæla fyrir um bann-, varnar- og eftirlitssvæði og aðrar sértækar aðgerðir í samráði við smitsjúkdómanefnd, sbr. reglugerð um viðbrögð við smitsjúkdómum
• Mæla fyrir um nánari rannsóknir í samráði við smitsjúkdómanefnd.


4. Stjórnstöðvar

4.1 Aðalstjórnstöð

Skrifstofa yfirdýralæknisembættisins þjónar sem aðalstjórnstöð, komi upp alvarlegur smitandi sjúkdómur í dýrum. Á skrifstofunni eru allar helstu gerðir samskiptatækja, tölvur, kort, listar yfir allar skrifstofur héraðsdýralækna, listi yfir allar stofnanir og samtök á landsvísu, sem hafa þarf samband við, listi yfir fólk sem hægt er að ná í samstundis til að aðstoða við aðgerðir og búnaður fyrir fyrstu aðgerðir.

4.2 Stjórnstöðvar í héraði

Skrifstofur héraðsdýralækna þjóna sem stjórnstöðvar í héraði, komi upp alvarlegur smitandi sjúkdómur í dýrum. Á skrifstofunum eru allar helstu gerðir samskiptatækja, tölvur, kort, listi yfir fólk, stofnanir og samtök í héraði, sem hafa þarf samband við, listi yfir fólk sem hægt er að ná í samstundis til að aðstoða við aðgerðir og búnaður fyrir fyrstu aðgerðir.


5. Sérfræðinganefnd

“Komi upp grunur um alvarlegan smitsjúkdóm skipar landbúnaðarráðherra þriggja manna smitsjúkdómanefnd sem skal vera yfirdýralækni til ráðgjafar og aðstoðar. Í nefndinni skulu sitja eftirfarandi sérfræðingar: Sérgreinadýralæknir viðkomandi dýrategundar, sérfræðingur á greiningarstöð og sérfræðingur í örverufræði/faraldsfræði.
Þegar fyrir liggur rökstuddur grunur um smitsjúkdóm skal yfirdýralæknir kalla saman smitsjúkdómanefnd í stjórnstöð. Hún skal stjórna viðbrögðum og aðgerðum samkvæmt viðbragðsáætlun.
Ef um er að ræða alvarlegan smitsjúkdóm í fiskum, skeldýrum og krabbadýrum skal fisksjúkdómanefnd gegna hlutverki smitsjúkdómanefndar, en hún er skipuð skv. lögum nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum”. (8. gr. reglugerðar nr. 665/2001).


6. Starfsfólk

Yfirdýralæknir hefur í þjónustu sinni, auk héraðsdýralækna, sérfræðinga á sviði hverrar búfjártegundar (sérgreinadýralækna), sérfræðinga í heilbrigðiseftirliti með sláturafurðum, meinafræði og faraldsfræði.


7. Tækjabúnaður

Viðbúnaðarkista er á skrifstofu yfirdýralæknis og hvers héraðsdýralæknis með nauðsynlegum áhöldum til sýnatöku og sendingu sýna, ásamt möppu með viðbragðsáætlun yfirdýralæknis, eyðublöðum, símanúmerum o.fl.8. Leiðbeiningar um viðbrögð við smitandi sjúkdómi í dýrum

Í kafla 3 í þessari skýrslu er að finna leiðbeiningar um boðleiðir og fyrstu viðbrögð við grun um smitsjúkdóm. Með henni fylgja einnig nauðsynleg eyðublöð vegna tilkynninga og söfnun upplýsinga.

Á heimasíðu yfirdýralæknis, www.yfirdyralaeknir.is, er þessar leiðbeiningar um boðleiðir og fyrstu viðbrögð einnig að finna, ásamt nauðsynlegum eyðublöðum. Þar eru sömuleiðis upplýsingar um einkenni og faraldsfræði ýmissa smitsjúkdóma eða tenglar á upplýsingar á öðrum síðum, svo og leiðbeiningar um töku og sendingu sýna.

Í viðbúnaðarkistu, hjá öllum héraðsdýralæknum, er mappa með lögum- og reglugerðum, eyðublöðum, leiðbeiningum um sýnatöku og sendingu sýna og nauðsynlegustu símanúmerum.


9. Rannsóknarstofur

Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, skal “…annast rannsóknir og þjónustu í þágu heilbrigðiseftirlits, sjúkdómsgreininga og sjúkdómsvarna fyrir búfé og önnur dýr í samstarfi við yfirdýralækni og þróa aðferðir í því skyni. Enn fremur að vera yfirdýralækni til ráðuneytis um allt er varðar sjúkdóma í dýrum og varnir gegn þeim”. (2. gr. laga nr. 67/1990).

Tilraunastöðin hefur gert samkomulag við Dansk Veterinær Institut í Danmörku og The Veterinary Laboratory Agency í Englandi um að taka við sýnum til rannsókna þegar fyrir liggur grunur um alvarlegan smitandi sjúkdóm, sem ekki eru aðstæður til að rannsaka hér.


10. Áætlun um neyðarbólusetningu

“Bannað er að bólusetja við smitsjúkdómum í viðauka 1 A og skal þeim útrýmt með niðurskurði”. (4. gr. reglugerðar nr. 665/2001).


11. Þjálfun

Námskeið og æfingar í viðbrögðum við smitsjúkdómum eru haldnar fyrir starfsfólk yfirdýralæknisembættisins og öðrum er boðin þátttaka.


12. Miðlun upplýsinga

Leiðbeiningar um viðbrögð er að finna á heimasíðu yfirdýralæknisembættisins www.yfirdyralaeknir.is. Þar er einnig að finna upplýsingar um ýmsa alvarlega smitsjúkdóma í dýrum og tengla á síður með nákvæmari upplýsingum.

 

Þessi texti á pdf-skjali