Um viðbrögð við alvarlegum smitsjúkdómi í dýrum

Reynslan sýnir að með auknum ferðum fólks milli landa, bættum og auknum samgöngum og sífellt vaxandi flutningi afurða milli landa, geta smitsjúkdómar komið upp nánast hvar sem er þrátt fyrir margvíslegar varúðarráðstafanir til að koma í veg fyrir slíkt.

Alvarlegir smitsjúkdómar í dýrum valda oft miklum þjáningum hjá dýrunum og alvarlegum afleiðingum fyrir velferð þeirra. Nær undantekningarlaust valda þeir einnig miklu fjárhagslegu tjóni fyrir eigendur dýranna, og brjóstist út faraldur getur það haft gífurleg neikvæð áhrif á efnahag þjóðarinnar.

Markviss, skipulögð og skjót viðbrögð við grun um alvarlegan smitsjúkdóm gera gæfumuninn, eigi að takast að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdómsins og tjón af hans völdum.

Á þessum vef er að finna almennar upplýsingar um alvarlega smitsjúkdóma í dýrum og leiðbeiningar um viðbrögð við þeim.