SÝNATAKA OG SENDING SÝNA

Leiðbeiningar frá Tilraunastöð í meinafræði að Keldum

Almennt um rannsóknir á lífsýnum

Sjúkdómsgreiningar á lífsýnum byggist á ræktun smitefnis, mótefnamælingum, krufningu, vefjaskoðun, blóðvantsrannsóknum og blóðefnamælingum.

Oft geta rannsóknir leitt til sértækrar sjúkdómsgreiningar, en í öðrum tilfellum útiloka grun um ákveðna sjúkdóma. Í flestum tilfellum verður að meta niðurstöður í samhengi við forsögu og klínísk einkenni, þannig að lífsýnarannsóknir verða aðeins hluti af greiningarferlinu.

Hafið samband við Tilraunastöðina að Keldum áður en sent er:

• Sýni vegna gruns um A- sjúkdóma
• Sýni til greiningar á hjarðvandamálum og til afléttingar takmarkana
• Mikið magn af sýnum
• Þegar vafi leikur á hverskonar sýni beri að rannsaka

Hvers ber að gæta við sýnatöku og sendingu lífsýna

Gæta verður þess að sýnataka sé þannig að mögulegt sé að greina sjúkdómsvandamálið út frá innsendum sýnum. Ef send eru inn hræ eða líffæri eru gerðar nauðsynlegar viðbótarrannsóknir eftir því sem við á til að leita svara við tilteknum vandamálum (bakteríu- og veiruræktun, osfrv.).

Rannsóknabeiðni

Tilraunastöðin á Keldum hefur látið gera stöðluð eyðublöð sem skal fylla út og leggja í þéttan plastpoka og senda með sýninu. Ýtarlega útfyllt rannsóknabeiðni er forsenda þess að hægt sé að gefa sem best svör við innsendum sýnum.

Sendandi/eigandi/greiðandi
Fylla skal út upplýsingar um sendanda og eiganda og skal þess getið hver greiði fyrir rannsóknina. Athugið undirskrift greiðanda.

Dýrategund
Upplýsingar um dýrið skal fylla út í þar til gerða reiti á eyðublaði. Upplýsingar skulu a.m.k. vera um: dýrategund (nánar um “dýrakyn” þar sem það á við), aldur, kyn og fjölda.

Forsaga og sjúkdómslýsing
Mikilvægt er að gera grein fyrir hvers vegna sýnið er sent til rannsóknar (sjúkdómur, heilbrigðiseftirlit, osfrv.). Koma verður fram hvort sýnið sent vegna veikinda og hve lengi veikindi hafa staðið. Önnur mikilvæg atriði eru: lýsing á einkennum og gangi sjúkdóms, fjöldi sjúkra/dauðra dýra, bólusetning og lyfjameðferð. Ef dýrið er dautt verður að koma fram hvenær það drapst og hvort dýrið varð sjálfdautt eða aflífað.

Umbúðir og merking

Þegar gengið er frá lífsýnum til sendingar verður að gæta fyllstu varkárni m.t.t. mengunar og smitgátar. Umbúðir verða að vera þéttar og traustar svo ekki sé hætta á að frá sýnunum geti lekið eða umbúðir rifnað/brotnað (sjá nánar um umbúðir m.t.t tegundar sýnis). Skrifið utan á umbúðir: Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, v/ Vesturlandsveg, 112 Reykjavík. Merkið auk þess greinilega nafn og heimilisfang sendanda og tegund sýnis.

Sending

Almennt gildir að senda skal öll sýni eins fljótt og auðið er. Sýni til meinafræði-, örverufræði- og sníkjudýrarannsókna verða að vera fersk ef öruggar niðurstöður eiga að fást úr rannsóknum. Þessi sýni verður að senda á hraðasta máta, helst niður kæld.


Nánari leiðbeiningar eftir tegund sýnis

Umbúðir, merking og sendingarmáti lífsýna ákvarðast nánar af tegund sýnis. Mikilvægt er að farið sé eftir þessum leiðbeiningum, bæði af almennum hreinlætisástæðum og tillitssemi við flutningsaðila, en einnig til að hindra hugsanlega dreifingu á smitefni.

Hræ, líffæri og vefjasýni
Þegar um er að ræða alvarlega sjúkdóma eða dauðsföll er mælt með að senda inn fersk hræ. Ef krufning fer fram á staðnum er æskilegt senda inn líffæri. Þegar um sjúkdómsvandamál í minni hjarðdýrum er að ræða (fiðurfé og loðdýr) er æskilegt að senda inn fleiri dýr til rannsóknar. Sýni til vefjarannsóknar ber að taka frá mótum heilbrigðs og sjúks vefjar þar sem það á við. Vefjasýni eru lögð í 10% formalín í magnhlutföllunum 1 hluti vefur á móti 10 hlutum formalín. Þegar tekin eru vefjasýni úr líffærum skal skera uþb. 0,5 sm þykkar sneiðar sem ekki ættu að vera meira en uþb. 2 sm í þvermál. Ef send eru inn stór vefjasýni t.d. æxli eða líffæri úr smádýrum er æskilegt að rista á þau til að gefa formalíni greiða leið inn að miðju þess.

Uppskrift að 1 lítra 10% formalíni í dúa (buffer):
900 ml vatn
100 ml. óblandað formalín (37% formaldehyd)
18,6 g Na2PO4*H2O
4,2 g NaOH

Hræjum og líffærum skal pakkað á eftirfarandi hátt:
1. Þerrandi efni (pappír), ríkulega
2. Plastpoki x 2
3. Slitþolin ytri pakkning, t.d. pappa- eða plastkassi

Vefjasýnum skal pakkað á eftirfarandi hátt:
1. Þétt plastílát fyrir með sýni í formalíni
2. Plastoki
3. Slitþolin ytri pakkning, t.d. fóðrað umslag eða pappírsaskja

Hræ, líffæri og vefjasýni merkist: MEINAFRÆÐI